Laugardagur, 3. desember 2011
Allskonar sniðugt!
Á ferð um netheima rekst maður iðulega á eitthvað sniðugt og skemmtilegt....það má þó deila um hversu nauðsynlegir þessir hlutir eru!
"Feels like heaven" standur í baðið fyrir kertaljósið, bókina og vínglasið.....ahhhhh!
Ferðabar! Hentar kannski einhverjum sem að býr þröngt en vill hafa lúxusbar- getur líka verið í friði fyrir litlum fingrum......kostar ekki nema 800 evrur!
Svalasta poppvél sem að ég hef séð.....þessa þarf maður ekki að fela inni í skáp!
http://www.nostalgieimkinderzimmer.de/artikel/weihnachtsvorfreude/weihnachtsbaeckerei/D.261/
Sko, þennan köku-stimpil veeeerð ég að eignast, þvílík snilld!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 20. nóvember 2011
Gamlar gersemar
Mamma bjargaði þessum "stimplum" frá því að lenda í glatkistunni, en þeir koma frá bókaútgáfu langafa míns. Það er svolítið snúið að stimla með þeim en með smá lagni og tækni er það vel hægt. Kortin eru mjög einföld en mér finnst það hæfa þessum fallegu myndum vel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 19. nóvember 2011
Bókajól!
Sem lestrarhesti og kennara er mér sérstaklega annt um að börn fái að kynnast undraheimi bókanna....nógu mikið af rannsóknum til um mikilvægi læsis (í víðum skilningi) og þar spila bækurnar og bókauppeldi stórt hlutverk. Þar sem jólin eru á næsta leiti og margir að leita að gjöfum, líka jólasveinar, þá má ég til með að benda ykkur á nokkrar bækur sem að ég rakst á. Þær eiga það allar sameiginlegt að vera gæðabækur á mjög viðráðanlegu verði:
Þessi er löngu orðin sígild, þekki marga sem finnst ómissandi að lesa hana fyrir jólin!
Þessi er svo skemmtileg, mæli með þessari! Þúsund kall!
Kuggur, Málfríður og mamma hennar Málfríðar og ekki má gleyma Mosa...það eru til nokkrar smábækur í þessari seríu, kosta minna en þúsundkall!
Æðisleg stafabók fyrir bókaorma....mæli eindregið með þessari!
skondin og skemmtileg eins og Eldjárn-systkina er von og vísa
virkilega vandaðar og fallegar bækur á 700 krónur....það eru kaup ársins!
Bahaha, þessi er æði!
Yndislega falleg og vönduð bók, mæli með þessari.
Moldvarpan sem vildi vita hver skeit á hausinn á henni: Sígild og sífyndin
Þessi æðislega, frábæra, yndislega skyldulesningarbók í kilju á 1100 kr. Við erum að tala um einu barnabókina sem hefur hlotið íslensku bókmenntaverðlaunin, takk fyrir!
Og svo nokkrar fræðibækur fyrir grúskarana og framtíðar vísindamennina á www.skrudda.is
Allar bækurnar hér að ofan kosta undir 2000 krónum og er hægt að panta í netverslunum forlaganna. Ég ætla að panta nokkrar og lauma í pakka lestrarhesta og bókaorma framtíðarinnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 8. nóvember 2011
Möffins eða bollakökur?
Það hefur sennilega ekki fram hjá neinum að möffins er í tísku um þessar mundir. Möffins hafa reyndar fengið nýtt íslenskt nafn: bollakökur. Ég verð að viðurkenna fáfræði mína og veit ekki upp á hár í hverju munurinn felst. Ég sé samt ekki betur en að hann felist aðallega í því hvort það er fallegt krem ofan á eða ekki og finnst það nú harla lítill munur. Því mun ég áfram kalla möffins möffins en ekki bollakökur. (Það verður þó að viðurkennast að orðið bollakökur (e. cup cakes) er mun íslenskara, nýyrði en ekki tökuorð eins og "möffins er (e. muffins), kannski að ég verði að skoða þetta mál betur.....).
En hvað sem öllum möffinsum og bollakökum líður þá fékk ég allskonar fínerí því tengt í afmælisgjöf þannig að núna get ég sko æft mig í að baka!
Um daginn afrekaði ég að gera fyrstu tilraun:
svona litu þær út þegar þær komu ilmandi úr ofninum (ansi venjulegt deig en bætti maukuðum jarðarberjum í deigið sem skýrir ljósbleika litill sem að glittir í)
hérna má sjá krúttkökurnar komnar með rjómaosta-jarðarberja-krem og á standinn fína.
og auðvitað varð ég að deila þessu góðgæti með einhverjum og mamma fékk svona glaðing
þessi fíni kassi var utan um kökurnar sem að ég fékk í afmælisgjöf og núna hefur hann verið endurnýttur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 30. október 2011
Afmælisdekur
Það er svo gaman að eiga afmæli og vera dekraður svona einn dag á ári! Þegar ég fór á fætur biðu mín eiginmaður og sonur en líka....
fallegir pakkar frá þeim og.....
og gotterí úr bakaríinu, skreytt muffins og kertaljós!
Um kvöldið var svo lasagne-teiti, svona litu kræsingarnar út (þið finnið nú alveg ilminn bara af myndinni!):
Kjöt- og grænmetislasagne, eitthvað fyrir alla! Heppin ég að finnast BÆÐI gott!
Og svo fékk ég meira af yndislegum gjöfum og kortum:
María vinkona gerði þetta fallega og snilldarlega einfalda kort, pappírinn er með upphleyptu mynstri og hún litaði bara í hluta af mynstrinu með bláum lit.....lítur út eins og þetta sé svona fallega útskorið....platar augað!
Mamma gerði þetta fallega kort með barnamynd af mér. Hún þurfti að klippa ofan af myndinni til þess að hún passaði á kortið og notaði afklippuna og mynsturgataði þessi líka fallegu laufblöð og notaði sem skraut á kortið! Önnur snilldarlega einföld og ofsalega falleg hugmynd.
Sigga vinkona gaf mér svo þennan æðislega pakka (afsakið hvað myndin er "flöt"). Skrautið á pakkanum er hálfklárað púsl og litlu pakkarnir ofan á eru bitarnir sem vantar. Ég þurfti auðvitað að klára púslið áður en ég mátti opna pakkann (greinilega of margir sem vita að ég er ekkert allt of sleip í að púsla!).
og síðast en ekki síst fékk ég þennan dekurpakka frá Kára bróður...heimatilbúinn slökunardiskur fyrir baðið, lavander bað (mér finnst lofnarblómailmur svo slakandi!) og svo nokkrir molar af himnesku konfekti úr Mosfellsbæjarbakaríi.
Þetta var sko afmælis-dekurdagur í lagi! Takk fyrir mig
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 17. október 2011
Af innanlandsflugi, krúttum og englum
Ég og krúttmúsin skruppum til Akureyrar um helgina og flugum báðar leiðir.
Á leiðinni norður var svolítil ókyrrð áður en við lentum og maður bæði fann og sá hvernig margir farþeganna stífnuðu og stressuðust. Þá varð mér hugsað til þess þegar ég flaug einu sinni til Egilsstaða og það var lítil stelpa í vélinni sem að hló svo hjartanlega í hvert skipti sem flugvélin hoppaði að eftir smástund voru nær allir í vélinni skælbrosandi og enginn stressaður yfir smá ókyrrð.
Á leiðinni heim svaf krúttmúsin mín vært í stólnum sínum og í sætaröðinni við hliðin á okkur var annað krútt, 5 ára sem að fannst ekkert mál að fara einn í flugvél. Hann var greinilega alvanur og kippti sér ekkert upp við það að flugfreyjan gat ekki sinnt honum strax, spurði mig bara hvar sæti númer fjörtíu væri, en hann var í sæti 14 D Svo bað hann mig um að spenna á sig beltið og vissi sko vel að það þyrfti að herða vel- fylgdist meira að segja vel með því að ég gerði þetta rétt þegar að ég spennti mig! Þegar við vorum svo komin í loftið og hætt að sjá landið fyrir skýjum spurði hann mig hvort að ég sæi einhverja engla í skýjunum. Ég leit út um gluggann og sagðist nú ekki sjá neina í augnablikinu. Þá svaraði hann spekingslega að hann hefði sko heyrt að þeir væru ósýnilegir og þess vegna sæi ég þá ekki!
Finnst ykkur ekki að það ætti að vera einn flugþjónn og svo eitt svona krútt í öllum innanlandsflugum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 11. október 2011
Svart hvítur órói
Það er þarfaþing að hafa góðan óróa fyrir ofan skiptiborðið og ég var alltaf á leiðinni að fara kaupa einn slíkan.....
Svo sá ég hjá einni sniðugri mömmu hvar hún hafði hengt allskonar lítið dót í hvert horn á ferhyrndu spjaldi og hengdi svo upp sem óróa eða dót til að slá í fyrir lilluna sína.
Ég hafði líka heyrt og lesið að ungabörn sjá best svart hvítar myndir/mynstur, sérstaklega á meðan þau eru enn að ná fullri sjón.
Og eitt kvöldið bræddi ég þessar ofureinföldu hugmyndir saman í einn ofureinfaldan svart- hvítan óróa fyrir litla gullmolann minn:
Fyrst leitaði ég að svart hvítum mynstri á veraldarvefnum og valdi fimm sem að mér fannst falleg:
skar þær út og límdi á litaðan pappír
sama myndin límd á báðu megin
þá fann ég nothæft band, í þessu tilfelli hvíta sænskættaða pakkabandsnúru frá IKEA
og batt svo herlegheitin saman í ofureinfaldan óróa
sem lítur svona út fyrir krúttið á skiptiborðinu
óróinn er ekkert festur upp, bandinu er bara tyllt undir körfuna á hillunni og þá helst hann, mjög þægilegt að geta fært hann hvert sem er, auðvelt að festa og léttur!
Litli maðurinn getur horft á þetta nánast dáleiddur tímunum saman, skríkir og hlær!
Ég er bara ansi ánægð með hann og það sem mikilvægast er....litli maðurinn er sko hæst ángæður með hann!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 11. febrúar 2011
Mín skoðun
Jæja, þá hef ég klambrað saman texta með helstu atriðunum sem mér finnst þörf að benda á og sent til starfshópsins. Ég vona að ég fari satt og rétt með allar staðreyndir:
"Góðan daginn,
Hér á eftir mun ég koma á framfæri ábendingum mínum til starfshópsins.
Ég fagna hugmyndum hópsins um samráð við hagsmunaaðila. Ég fór full jákvæðni sem fulltrúi starfsmanna á samráðsfund. Þar fékk ég í hendurnar fróðlegar tölur um nemendafjölda en engar krónutölur. Hvernig á maður þá að geta sett fram nothæfar tillögur? Eru yfirhöfuð til áætlanir og tölur um hvað sameiningartillögurnar eiga að spara í krónum talið? Ef ég fæ ekki nauðsynlegar upplýsingar í hendurnar eru tillögur mínar marklausar. Því er ég sammála þeim sem kalla samráðið hingað til sýndarsamráð.
Að tala um faglegan ávinning finnst mér hæpið á allan hátt. Að fækka stjórnendum er glapræði sem mun á endanum hafa sín áhrif á börnin. Leikskólastjórnendur eru máttarstólpar á sínum vinnustað eins og burðargrind í húsi. Minni viðvera þeirra mun leiða til meiri ábyrgðar og fjarveru deildarstjóra frá börnunum og oft eru deildarstjórarnir einu fagmennirnir á sinni deild (án þess að ég vilji á nokkurn hátt gera lítið úr störfum þeirra fjöldamörgu frábæru leiðbeinenda sem starfa á leikskólunum).
Það er staðreynd að flestir leikskólastjórnendur eru kvenkyns. Að fækka leikskólastjórnendum mun skekkja svo um munar tölur Reykjavíkurborgar um kynjahlutfall í stjórnunarstöðum. Það getur ekki verið í samræmi við jafnréttisáætlun Reykjavíkurborgar.
Ef tillögur um sameiningar tveggja leikskóla ná fram að ganga munu stjórna þar 1 leikskólastjóri og 1 aðstoðarleikskólastjóri (samtals 2) í stað 4 áður (ég veit að aðstoðarleikskólastjórnar munu ekki hafa vinnuskyldu inni á deild eins og nú). Stjórnendur forfallast eins og aðrir og þá munu deildarstjórar óhjákvæmilega oftar þurfa að taka að sér störf stjórnenda. Það finnst mér ótækt þar sem slíkar afleysingar eru ekki borgaðar nema um sé að ræða afleysingu til lengri tíma. Þannig munu deildarstjórar taka á sig meiri ábyrgð en ég leyfi mér að efast um að þeir fá launahækkun í samræmi við það.
Að Reykjavíkurborg skuli ætla að nýta sér heimildarákvæði í lögum frá 2008 um sameiningu leik- og grunnskóla finnst mér forkastanlegt. Í lögum um leikskóla voru mjög sterk ákvæði þess efnis að stjórnun leikskóla ætti að vera í höndum leikskólakennara og í grunnskólalögum voru sambærileg ákvæði um að stjórnun ætti að vera í höndum grunnskólakennara.Heimildarákvæðið var samþykkt í lögum 2008 og hugsað sem undanþága fyrir lítil sveitarfélög, ekki stærsta sveitarfélag á Íslandi, Reykjavíkurborg. Sjá nánar: http://www.roggur.blog.is/blog/kristindyr/entry/1140114/
Ég er grunnskólakennari að mennt en kenni á leikskóla. Ég hef miklar áhyggjur af því að leikskólinn lúti í lægra fyrir grunnskólanum ef þessi tvö skólastig verða sameinuð. Í mínum huga eru bæði skólastigin jafn mikilvæg.Dæmin sanna að nær alltaf er ráðinn grunnskólakennaramenntaður skólastjórnandi þegar sameinað er. Sjá nánar: http://www.roggur.blog.is/blog/kristindyr/entry/1140790/
Af hverju fullnýtir ekki Reykjavíkurborg heimildir sínar til útsvars? Menntun barnanna, framtíðarinnar, er samvinnuverkefni okkar allra og ég skal glöð borga mitt til þess að stefna henni ekki í hættu.
Þegar tillögurnar liggja fyrir í lok febrúar vil ég í anda samráðs og sem skattborgari í Reykjavík fá að vita:· hvað vinna starfshópsins hefur kostað?· hvað er áætlað að sameiningarnar kosti ?· hvað áætlað er að sparnaðurinn verði?
Með von um að þið hlustið á skoðanir hagsmunaaðila (kennara og foreldra) og takið í raun og veru ákvarðanir með hagsmuni barnanna í huga, það er svo mikið í húfi!"
Áhugasömum bendi ég á fróðlegt blogg Kristínar Dýrfjörð og ágæta umfjöllun í Speglinum á Rás 2.
Hérna má einnig lesa ýmsar fréttir: á dv.is og fréttir 1 og 2 af ruv.is
Og loksins kom eitthvað í Kastljósinu um þetta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 11. febrúar 2011
Mér er mál.....að tjá mig!
Hafir þú, lesandi góður, eitthvað fylgst með fréttum undanfarna daga ættir þú að hafa heyrt af fyrirhuguðum sparnaðaraðgerðum í leik- og grunnskólum borgarinnar. Margir hugsa með sér "það verður að spara þar eins og annars staðar" og það er skoðun sem á rétt á sér. Það er ekki hægt að eyða peningum sem eru ekki til (nema í bönkum!).
Staðreyndin er hinsvegar sú að þetta er þriðja árið í röð sem skorið er niður í skólakerfi Reykjavíkur (og það er nú ekki eins og þar hafi verið nokkurt bruðl í gangi!). Hvernig er hægt að skera meira niður þegar það er ekkert kjöt eftir utan á beinunum?
Jú, maður fer í pólitískan leik, stofnar starfshóp sem " á að skoða faglegan og fjárhagslegan ávinning af sameiningu leik- og grunnskóla." Til þess að allir haldist kátir og glaðir óskar maður eftir "samráði". Þá mega fulltrúar foreldra og starfsmanna frá hverjum skóla koma á fund og koma með sínar sparnaðar- og sameiningartillögur. Hljómar vel, ekki satt? Ég mætti á svona fund full jákvæðni og fékk í hendurnar fróðlegar tölur um nemendafjölda og stærð húsnæðis. En ég fékk ekki að sjá neinar krónutölur (sem þetta snýst allt um) og hef ekki heyrt af neinum sem hefur fengið að sjá þær. Hvernig á maður þá að geta sett fram nothæfar tillögur? Eru þessar tölur yfir höfuð til?
Þetta finnst mér vera sýndarsamráð og ég er ekki ein um þá skoðun miðað við yfirlýsingar frá foreldraráðum og minnihluta borgarstjórnar. Ég ætla þó að taka þátt í leiknum örlítið lengur og senda inn athugasemdir mínar á ábendingarsíðu starfshópsins. Ég hvet aðra sem hafa skoðanir á þessum málum, jákvæðar sem neikvæðar, til hins sama. Með því sýnum við í verki að okkur er ekki sama um skólastarfið í borginni.
Hafið hraðar hendur, ábendingagáttin lokar víst á miðnætti í kvöld 11. febrúar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
BulluKolla
34 dagar til jóla
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar