Hið eilífa kennaratuð!

Ég veit að það er auðvelt að gagnrýna án þess að koma með aðrar tillögur að lausnum. Ég veit að það er ekki hægt að eyða peningum sem eru ekki til. En ég skil ekki hvernig virðist alltaf hægt að skera niður þegar allt kjöt er löngu farið af beinunum.

Það væri kjánalegt af mér að halda því fram að við á Íslandi höfum slæmt menntakerfi. Sé á heildina litið höfum við gott menntakerfi og það eru margir frábærir hlutir í gangi í íslenskum skólum (frá leikskóla upp í háskóla). Í flestum tilfellum er húsnæðið ágætt og kennslugögn líka. En starfsmennirnir (æji, þið vitið, sem halda þessu öllu gangandi) spyrja sig reglulega hvort það sé verið að hafa þá af fíflum (sem er frábær tilfinning og þykir mjög æskileg í nútíma stjórnunarfræðum).

Nákvæmlega þannig líður mér fyrir hönd leikskólakennara í Hafnarfirði og Kópavogi eins og Haraldur F. Gíslason lýsir svo vel í þessari grein sinni. Ég get ekki enn sagt til um mína líðan því ég ekki fengið upplýsingar frá vinnuveitanda mínum um í hvaða formi niðurskurðurinn verður í ár.

"Það geta allir sungið rokk, það geta allir spilað pönk, það geta allir verið gordjöss, það geta allir farið í sjónvarpsviðtöl, það geta allir verið í bæjarstjórn.  En það geta ekki allir verið kennarar. Það geta ekki allir haldið jákvæðum og góðum aga á 23 barna deild eða bekk. Það geta ekki allir skapað með gleði vinnufrið til náms á 23 barna deild eða bekk. Kennsla er list. Góðir kennararar eiga skilið mannsæmandi laun og starfsumhverfi."

Og svo var það skólabílstjórinn sem mátti kenna en kennarinn mátti ekki keyra rútuna. Rökrétt?

Svara þér hér Sigurborg þar sem ég get ekki lengur skrifað athugasemdir: Forgangur starfsmannabarna er til kominn (af því að ég best veit) til þess að fá starfsmennina fljótar aftur til vinnu. Ég er alveg sammála þér að það er alveg jafn mikilvægt fyrir aðra foreldra að koma börnunum sínum inn á leikskóla en með því að taka starfsmannabarnið inn komast a.m.k. 3-10 önnur börn að í leikskólanum (því starfsmaðurinn er kominn til vinnu). Það eru nefnilega ekki nægilega margir sem vilja vinna á leikskólum (líka í kreppunni.....). Þetta hefur því hingað til verið "allir græða" hugsun á bak við þetta. Þegar nægt framboð verður af starfsmönnum er tímabært að taka þessi "fríðindi" af og sanngjarnt.

Eftir því sem ég best veit stendur ekki til að fella starfsmannaafsláttinn niður hjá Reykjavíkurborg. Það er ekkert óeðlilegt við það að mínu mati að starfsmenn á hverjum vinnustað njóti einhverrra fríðinda en kannski sanngjarnara að það sé í formi sem nýtist öllum starfsmönnum (aldrei hafa þessi fríðindi nýst mér barnlausri). Það sem gerir fólk reitt yfir þessari breytingu í öðrum sveitarfélögum er hversu brátt hana bar að og fyrir marga var þetta kornið sem fyllti mælinn.

Ég vil hinsvegar ekki bara kvarta og kveina og þakka hér með vinnuveitunum mínum hjá Reykjavíkurborg fyrir þau "fríðindi" sem ég hef. Ég fæ ókeypis bókasafnskort, í sund og á söfn borgarinnar. Eins og ég hef nýtt mér þetta hefur þetta sennilega sparað mér um 2000 krónur á ári. Einnig er vert að nefna að Reykjavíkurborg borgar starfsmönnum leikskóla ennþá svokallað neysluhlé en það var sett á í góðærinu sem smá launauppbót (fyrir að fá aldrei matar-og kaffitíma á "venjulegum" matar og kaffitímum). Þetta hefur haldist inni í Reykjavík en í staðinn hafa leikskólakennarar framlengt kjarasamninga frá 2006 eða 2007 án nokkurra launahækkana.

Takk fyrir skoðanaskiptin og stuðninginnSmile


Jóladagatal

Eitt af því skemmtilega við jólahátíðina og desember er tilhlökkunin. Jólin voru auðvitað skemmtulegust þegar maður var barn, eða þegar maður fær að upplifa jólagleðina með börnum. Það er líka gaman að vera svolítið barnalegur og leyfa sér að hlakka til jólanna og þá er æðislegt að fá jóladagatal. Við Jens höfum stundum komið hvort öðru á óvart með jóladagatali, einu sinni biðu mín 24 pakkar á snúrunum á Bárugötunni og í ár fékk ég súkkulaðidagatal. Í fyrra fékk Jens dagatal frá mér á gardínustönginni í stofunni:

des2009 009_resize       des2009 013_resize

Litlu kortin með spakmælum um ástina voru búin til úr pappírsafgöngum og svo voru litlar gjafir með, hnetur og fleira.

í ár ákvað ég að gera eldspýtustokkadagatal með fallegum spakmælum fyrir vinafólk okkar í Þýskalandi en litla stelpan þeirra var að greinast með krabbamein. Við vonum að spakmælin færi þeim kraft og von en það er lítið annað sem við getum gert fyrir þau svona langt í burtu.... En þá að dagatalinu góða:

jolajola 018_resize

 Svona lítur það út!

jolajola 014_resize

Og á hlið. Höldurnar á skúffunum eru litlar perlur.

jolajola 023_resize

Skúffurnar voru málaðar að innan og klæddar með pappa. Spakmælin voru svo bundin saman með snúru.

Og þá er nóg komið að föndurmonti í bili Cool


Ég kemst í hátíðarskap...

Ég má til með að vekja athygli ykkar á jólatónleikum Reykjalundarkórsins. Þetta eru mjög fjölbreyttir tónleikar með hátíðlegum lögum eins og "Heyr himna smiður", negrasálmum eins og "Oh happy day" og svo er fjöldasöngu rí lokin. Allar nánari upplýsingar koma frá á þessari fínu auglýsingu sem Sigurborg systir galdraði fram fyrir okkur:

Jólatónleikar Reykjal_minni

 


Corollan, gamla og nýja

Ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverju ykkar þá tilkynnist það hér með: Keypt hefur verið ný sjálfrennireið og sú gamla seld.

Já, sá dagur rann upp að við hjónakornin opnuðum heimabankann og hugsuðum: "jú, þetta ætti að duga fyrir ágætum bíl." Eftir að hafa skrifað niður hvaða eiginleikar voru mjög mikilvægir fyrir nýja bílinn og hverjir væru æskilegir hófst leit að góðu eintaki. Bílasérfræðingar fjölskyldunnar voru kallaðir til og margan eftirmiðdaginn hrelldum ég og Kjartan bílasala í Reykjavík í von um að finna gott eintak. Skemmst er frá því að segja að það gekk ekki þrautalaust fyrir sig, í alvörunni, nær allir bílarnir sem við skoðuðum voru með ömurlega smur- og þjónustubók. Þegar bílakaupsþolinmæðikvótinn minn var alveg að verða búinn kom í sölu hjá Toyota umboðinu bíll eins og við vorum búin að leita að og eftir prufuakstur og gaumgæfilega skoðun komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta væri bíllinn. Tataaaa!

corolla05

Ójá, 10 árum yngri en sá gamli og hlaðinn aukabúnaði sem ég er ekki vön s.s. fjarstýrðum samlæsingum, ABS-hemlum, útvarpstökkum í stýrinu, "cupholders", álfelgum, dökkum afturrúðum......Skemmst er frá því að segja að við hjónakornin erum mjög ánægð með kaupin og erum óðum að venjast þessari lúxuskerru.

Það er ómögulegt að blogga um bílakaupin án þess að minnast á gamla eðalvagninn, Toyota Corolla xli 1300 (ójá, krafturinn!) árgerð 1996. Það var sannkallaður fjölskyldubíll; Inga fyrrverandi mágkona átti hann, svo mamma í 5 ár og svo ég í heil 6 ár! Það er bíll með karakter eins og bíl á hans aldri sæmir:

 corolla96

  • Ekki skrúfa framrúðurnar niður-þær eiga það til að festast þar
  • Mundu að kúpla vel áður en þú setur í bakkgír
  • einn lykill að hurðinni (nýr, báðir lásarnir voru orðnir gatslitnir) og annar til að starta bílnum
  • Rauður að framan og aftan, ljósbleikur á toppnum og hliðunum (enginn klesst á þá hluta bílsins og þeir því aldrei verið sprautaðir)
  • Ekkert ljós í skottinu (það leiddi út, best að fjarlægja það) og bara hægt að opna skottið að innan (enn og aftur, slitinn lás)

...svona svo fátt eitt sé nefntTounge Eðalkerran sú er nú í eigu 17 ára stráks. Vonandi sé ég hann samt á ferð hér um bæinn því ég verð að viðurkenna að við söknum hans svolítið. Í þessum bíl hef ég ferðast um flesta fólksbílafæra (og einn ekki fólksbílafæran) vegi á Íslandi, flestir fjölskyldu meðlimir hafa reynt að setja hraðamet á honum (ég vísa í umræðu á Snjáldurskjóðunni) og hann hefur haldið viðgerðarmönunnum pabba og Örvari í æfinguHalo (efast um að þeir sakni hans eins og ég....)

Þannig að ef þið sjáið dökkgráa Corollu skutbíl á ferð um bæinn þar sem ökumaðurinn bremsar óþarflega harkalega (er að venjast ABS-hemlunum) eða brunar skælbrosandi upp Ártúnsbrekkuna á "vinstrustu" akrein (1600 vél er lúxus miðað við 1300 vél!) þá er það sennilega égKissing

 


Feimin eða frökk?

leikskoli_fridrik 

Ég sendi tölvupóst í dag á vikublaðið Reykjavík og gaukaði að þeim hugmynd að fjalla um allt það góða starf sem fer fram í skólum (grunn og leik) borgarinnar, svona til þess af jafna út allar neikvæðu fréttirnar um skert fæðingarorlof og barnabætur. Í tölvupóstunum sagði ég að það mætti gjarnan fjalla meira um hið jákvæða og góða í skólum á Íslandi- við erum nefnilega með góða og metnaðarfulla skóla hérna á klakanum. 

Svo hugsaði ég að ég ætti kannski að líta mér nær og byrja á sjálfri mér og vinnunni minni. Feimnin í mér segir mér að það sé svolítið sjálfhverft en ég ætla að vera frökk og benda ykkur á sögurammana sem ég hef þróað í vinnunni hjá mér síðastliðin 2 ár, ég er nefnilega stolt af þeim.Kissing

Fyrir þá sem velta fyrir sér hvað ég geri eiginlega í vinnunni, annað en að snýta og skeina, bendi ég á vikulega fréttabréfið okkar á deildinni minni og myndirnar.

og eitt gullkorn í lokin:

5 ára strákur: "...og núna var minns dáinn."

5 ára stelpa: "Nennirðu að láta hann ekki lifna við aftur, ok?"


Gott mál

Við Íslendingar erum stoltir af tungumálinu okkar, íslenskunni- enda eitt sterkasta og mikilvægasta sameiningartákn okkar. Ég tel óhætt að slá því föstu að íslenskan okkar væri ekki svona "hrein" ef það hefði ekki verið rekinn öflugur áróður fyrir því að vanda mál sitt og vernda íslenskuna, sé hún t.d. borin saman við dönsku og þýsku.

Engu að síður er vinsælt að tala um hrakandi kunnáttu unga fólksins og slæmt málfar. Mér finnst oft erfitt að segja hvort ákveðnar málbreytingar eigi að flokkast undir slæmt málfar og hnignun íslenskunnar eða einfaldlega eðlilega þróun tungumálsins.

Ég hef tekið þá ákvörðun að reyna temja mér góða íslensku (t.d. hérna á blogginu) en auðvitað verða mér á mörg mistök og ég tala hvorki né skrifa kórrétta íslensku öllum stundum. Ég má þó til með að nefna tvennt sem mér finnst ansi áberandi hjá Íslendingum á Íslandi í dag:

1. Fallbeygingarleti: Í helgarblaði Fréttablaðsins (28. ágúst 2010) er stingandi dæmi um slíkt: Í Mecca-Spa er í boði námskeiðið "Í gott form með Sóley" (á að vera með Sóleyju). Aðrir fá þó nöfnin sín fallbeygð t.d. "Pilates með Lovísu" og Jóga með Theu". Ég tek oft eftir þessu í vinnunni þar sem Guðný, Dagný og Laufey fá nöfnin sín sjaldnast fallbeygð.

2. Þátíðarfælni. Dæmi: "Varstu að detta?" (enska:Were you falling) í stað þess að segja einfaldlega "dastu?" Það sem stingur mig í þessu er hin beina þýðing úr ensku, sem er oft mjög langsótt og í raun flóknari en að nota sögnina í þátíð. Þetta er alveg ótrúlega algengt og ef þið takið vel eftir eigið þið eftir að sjá að þetta er mjög algengt bæði í töluðu og rituðu máli.

Þá vona ég bara að það sé engin málvilla í þessu texta hjá mér (fyrir utan gæsalappirnar sem ég veit að eru ekki réttar, en verða að vera svona vegna tæknilegra annmarka).

Veriði ævinlega blessuð og sæl :-)

 


Skrýtið?

Í helgarútgáfu Fréttablaðsins er heilsíðugrein (bls. 30) sem ber nafnið "Ekkert grín að vera 6 ára" og á að gefa foreldrum 6 ára barna góð ráð í byrjun grunnskólagöngu. Í greininni er rætt við hjúkrunarfræðing, sálfræðing og iðjuþjálfa og þeir koma með ráð og ábendingar.

Hjúkrunarfræðingurinn kemur með nokkur góð ráð, sálfræðingurinn með ágæt en iðjuþjálfinn er með ráð sem henta kannski betur til kennara en foreldra.

En hvað sem segja má um ráð þessa sérfræðinga stingur í augun að ekki er rætt við neinn grunnskólakennara - þeir eru nefnilega sérfræðingar í grunnskólagöngu barna á Íslandi. Skrýtið?


Má til með að benda á þetta blogg

Heyrði af þessu bloggi um daginn og má til með að benda á það, létt, skemmtilegt og hagnýtt fyrir konur með línur :-)

http://www.curvychic.blog.is/blog/curvychic/


Sjónlaus og loftlaus

Frábært vorveður og ég dríf mig út að hjóla á nýja eðalhjólinu mínu (sem er sennilega verðmætara en bíllinn minn). Ég svíf um borgina í sæluvímu, er stolt af mér að puðast upp heillanga og bratta brekku og get ekki varist því að hugsa hvað lífið geti nú verið ljúft!Smile

Á heimleiðinni dettur allt í einu  linsan úr öðru auganu á mér. Hún hafði nú eitthvað verið að angra mig en ég nennti ekki að pæla í því þar sem ég var upptekin af því að njóta hjólaferðarinnar. Og þar sem ég stoppa til að reyna troða linsunni aftur í augað (sem tókst ekki) hlýt ég að hafa farið á glerbrot eða eitthvað álíka því að þegar ég tek aftur af stað er afturdekkið alveg loftlaust!

Því var lítið annað að gera en að leiða fína hjólið heim í tæpan hálftíma, nær sjónlaus á öðru auga, urrrrPinch


Sónarbrandarinn

Það byrjað á því að ég fór til læknis. Er með einkennilega kúlu inni í lófanum sem fer ekki og kominn tími til að láta líta á það. Læknirinn heldur að þetta sé "Ganglion" (já, gúgliði það bara....) en til þess að staðfesta það þarf að kíkja inn í lófann á mér með hjálp tækninnar; hendin á mér þarf að fara í sónar!

Mér fannst þetta svo skondið og var að segja samstarfskonu minni frá þessu. Hún benti mér á hversu frábærlega tvírætt þetta var og síðastliðinn sólarhringinn hef ég notað ég-er-að-fara-í-sónar-brandarann mikið....

Ein samstafskona mína æpti yfir sig að gleði þegar ég sagði henni "fréttirnar"- en hún er einmitt alltaf að spyrja mig hvenær ég fari nú að koma með eitt lítið.

Svo skellti ég þessu auðvitað á fésbókina- aðallega í kaldhæðni, ég meina, það hefur nú verið tilkynnt um hjónaskilnaði og andlát þar inni! Svörunin stóð ekki á sér; fimm mínútum seinna hringdi Sigga vinkona alveg brjáluð í mig, hvað það ætti eiginlega að þýða að segja henni fréttirnar á fésbókinni!!!!Cool

Guðbjartur bróðir í Kanada óskaði mér til hamingju og spurði hvað ég væri kominn margar vikur á leið....og varð svolítið súr þegar ég sagði honum að kúlan væri í lófanum.....En hann fyrirgaf mér þegar ég sagði honum að ef ég yrði einhverni tímann ólétt myndi ég nú segja honum það í eigin persónu, hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að frétta það svona!

Og fyndnast af öllu: Í dag þurfti ég að tala við yfirmann minn til þess að frá frí og mæta í handasónarinn. Ég kunni ekki við að stríða henni svona og bið um frí til þess að fara í sónar á hendi, en það skipti engu máli, hún brosti sínu blíðasta og ætlaði að fara óska mér til hamingju þegar ég endurtek; "á hendi, á hendinni" og bendi meira að segja á hendina....þá fattaði hún loksins!

Grin


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

BulluKolla

Skoðanir og sögur í hversdagslífinu.

Höfundur

Kolbrún Guðríður Haraldsdóttir
Kolbrún Guðríður Haraldsdóttir

230 dagar til jóla

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • vika17 030
  • vika17 029
  • vika17 017
  • vika17 016
  • vika15og16 174

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband