Færsluflokkur: Bloggar

Gullkorn

Eins og kennarastarfið getur verið krefjandi, verður það þess virði á nokkrum augnablikum þegar gullkornin hrjóta af vörum nemendanna.

Í snjófarginu um daginn voru nemendur um alla skólalóð í snjóframkvæmdum. Nokkrir voru ekki sammála um pláss og yfirráðasvæði og ég fór því að sætta málin. Ég lagði áherlsu á að enginn ætti neitt svæði á skólalóðinni og að það ætt sko enginn snjóinn. Þá svaraði einn: "já, en Kolbrún, Guð á snjóinn!". Þessari fullyrðingu er eiginlega ekki hægt að neita, eða hvað? Halo

Það er sígild að tala um hnignandi málvitund og íslenskukunnáttu nemenda. Einn nemenda minna er afbragðsgóður í íslensku (enda algjör lestrarhestur) og var að segja mér frá því að einhver væri heigull. Sessunauturinn hans hváði, "hvað er eiginlega heigull?" Ég útskýrði að það væri einhver sem þorði ekki, væri ekki hugrakkur. Þá gall í nemendanum: "jááá, svona chicken!"Grin

Svo var það krúttið í leikskólanum sem spurði mig hvort ég vildi krydda fyrir hann litinn sinn, þið vitið, ydda!LoL

Látum gott heita í bili,

Kolla kennari

 (eru ekki allir búnir að taka þátt í könnuninni?)

Lúxus-líf

Ég er búin að vera svo upptekinn að njóta lífsins (og vinna) að ég hef ekki gefið mér tíma til þess að blogga. En lööööngu kominn tími á það og ýmislegt sem ég get deilt með ykkur!

Til dæmis fórum við Jens með nokkrum vinum um síðustu helgi í "brunch" á Hilton. Það stóð algjörlega undir væntingum, við fengum gott borð, góða þjónustu og frábæran mat. Algjörlega óhætt að mæla með þessu þar sem úrvalið er gríðarlegt, maturinn er bragðgóður og verðið sanngjarnt eða 2500 kr. á manninn. Þetta er hinsvegar ansi vinsælt hjá landanum og því nauðsynlegt að panta borð.Kissing

Núna um helgina ákváðum við að halda áfram í hótel-dekrinu og skelltum okkur á vetrartilboð Hótel Arkar, gisting og 3 rétta kvöldverður á 6900 kr. Áður en við lögðum í hann þurftum við að frelsa kaggann minn sem var búinn að standa óhreyfður í nokkra snjódaga. Til þess þurfti:

  • snjóskóflu
  • kúst
  • góða skó
  • kraft og þolinmæði

Það tókst á endanum og við brunuðum austur fyrir fjall og létum snjófjúkið á Hellisheiðinni lítið á okkur fá (enda hélst kagginn á veginum allan tímann, ansi gott, eh?). Hótelið stóð undir væntingum, fínt herbergi, sæmileg þjónustu, fínasti kvöldverður og sæmilegur morgunverður. Allt sem hægt er að gera kröfu um fyrir þennan pening! En tilgangnum var náð, aðeins að kúpla sig út úr stressinu og slappa af, ahhhh!Happy

Ég mæli með hvoru tveggja ef þið þurfið á smá dekri að halda....

góðar stundirHeart


Gleðilega hátíð!

Christmas-Snoopy-Lights-TreeGleðilega hátíð til allra lesenda minna, vina og ættingja nær og fjær!Heart Ég var einmitt að hlaða inn myndum frá hátíðahöldunum hjá fjölskyldunni, það var kominn tími á nýjar myndir!Halo

Á aðfangadag, þegar ég var búin að fínpússa íbúðina og farin að fínpússa mig, lenti ég í skondnu atviki. Ég var að lita á mér augabrúnirnar og til að nýta tímann ákvað ég að tæma myndavélina á meðan liturinn festist. Ég tæmdi vélina, skoðaði póstinn og gleymdi mér svo í áhrifamiklum fréttum um einstök börn á Vísi.is. Það er hreint ótrúlegt hvaða sjúkdóma börn geta fengið og hvað hreinlega á fólk er lagt í þessum efnum. Þegar ég var farin að snökta fyrir framan tölvunu ákvað ég að nú væri nóg komið, það væru nú að koma jól, og ákvað að gera eitthvað nytsamlegt. Þegar ég stóð upp frá tölvunni velti ég fyrir mér hvað ég hefði eiginlega verið að gera....hmmm....og allt í einu mundi ég...ÉG VAR AÐ LITA Á MÉR AUGABRÚNIRNAR FYRIR GÓÐUM HÁLFTÍMA SÍÐAN!!!!

Ég hljóp inn á bað og fann allt í einu að liturinn var byrjaður að harðna. Ég sá fyrir mér að ég hefði sviðið augabrúnirnar af mér eða liti í besta falli út eins og dökkbrýndur austurlenskur karlmaður, bara vel plokkaður! Sem betur fer reyndist þetta ekki svo slæmt, ég er reyndar heldur dökkbrýnd en gat látið sjá mig í jólaboðunum þetta árið. Og það var mikill léttir, húff pjúff!Tounge

En úr hrakfallasögum yfir í montið. Það var nefnilega að birtast grein eftir mig í Skímu, tímiriti móðurmálskennara. Hún er um yndislestur og einmitt unnin upp úr lokaritgerðinni minni. Ég er bara nokkuð ánægð með hana.Joyful

Og að lokum smá áróður til allra sem þetta lesa að kaupa nóg af flugeldum og að sjálfsögðu hjá björgunarsveitunum, skemmtun og góðgerðarmál í einum pakka, íha!Grin


Pakkaleikur

Á fimmtudaginn var síðast vinnudagur fyrir jólafrí. Starfsfólk skólans kom saman og drakk jólakaffi og skiptist á gjöfum í pakkaleik. Ég var ósköp hefðbundin; lagði til konfekt og fékk kerti. Þannig var einmitt meirihlutinn af gjöfunum, konfekt eða kerti. Einhverjir tveir snillingar settu þó mun frumlegri gjafir í pakkana sína; magnpakkningu af Wella-sjampói!LoL

Auðvitað er það miklu nytsamlegra en kerti og konfekt sem allir eiga nóg af! Og svipurinn á konunum heppnu sem að fengu sjampó-pakkana var hreinlega óborganlegur!Grin

Á næsta ári ætla ég að leggja til handsápu og klósettpappír.....Halo


Gleðigjafi

Haldiði ekki að jólasveinka hafi birst hjá mér í vinnunni í dag!

Hún kom færandi hendi að jólasveina sið, færði mér jóladiskinn hans Ragga Bjarna. Hann er bara skemmtilegur, gaman þegar það eru líka ný jólalög, ekki alltaf bara þessi gömlu góðu. Yndislegt að fá svona óvænta gjöf af engu sérstöku tilefni.

Þetta kallast sennilega að dreifa gleði þ.e. bæði óvæntum gjöfum og fallegri tónlist!

Takk fyrir mig Sigga mínHeart


Satt og krúttlegt

443254_05-love-heart-2Ég fékk svo sætan póst í dag, einhver ykkar hafa sennilega séð þetta áður en þetta er engu að síður satt og góð áminning fyrir okkur öll í erli dagsins:

Charles Schultz er höfundur teiknimynda syrpunnar Peanuts. Þú
þarft ekki að svara spurningunum.
Lestu verkefnið og þér mun verða þetta ljóst:

1. Nefndu fimm auðugustu einstaklingana í heiminum.
2. Nefndu fimm síðustu sigurvegara í fegurðarsamkeppni Evrópu.
3. Nefndu tíu einstaklinga, sem hafa unnið Nobels verðlaunin.
4. Nefndu sex leikara og leikkonur, sem unnu Óskars verðlaunin á
     síðasta ári.


    Hvernig gekk þér?
Niðurstaðan er, að enginn okkar man fyrirsagnir gærdagsins.
Þetta eru ekki  annars flokks afreksmenn. Þeir eru þeir bestu á sínu
sviði.En klappið deyr út.Verðlaunin missa ljómann. Afrekin eru gleymd.
Viðurkenningarnar og skírteinin eru grafin með eigendum sínum. 

Hér eru nokkrar aðrar spurningar. Sjáðu hvernig þér gengur með þær:

1. Skrifaðu nöfnin á fimm kennurum sem hjálpuðu þér á þinni
    skólagöngu.
2. Nefndu þrjá vini, sem hafa hjálpað þér á erfiðum stundum.
3. Nefndu fimm einstaklinga, sem hafa kennt þér eitthvað mikilvægt.
4. Hugsaðu um fimm einstaklinga, sem kunnu að meta þig að
    verðleikum.
5. Hugsaðu um fimm einstaklinga, sem þér þykir gott að umgangast. 

   Auðveldara?

Lexían: Fólkið sem skiptir þig mestu máli í lífinu eru ekki
þeir, sem hafa bestu meðmælabréfin, mestu peningana eða flestu verðlaunin.  Heldur þeir, sem finnst þú skipta mestu máli.

Njótið dagsinsHeart
    


Sjálfsafgreiðsla

Ég fór í Krónuna í Húsgagnahöllinni í gær. Þar er komið voða sjálfsafgreiðslukerfi, maður gerir þetta bara sjálfur á kassanum. Ég varð auðvitað að prófa, þetta gekk nú frekar hægt svona í fyrsta sinn, en engu að síður áhugaverður möguleiki. Ég var samt fegin að vera ekki með mikið af grænmeti og ávöxtum sem þurfti að vigta, það er frekar tímafrekt!Wink Ég vona að íslenskir kaupmenn séu að þessu til þess að geta lækkað vöruverðið, það ætti allavegana að vera tilgangurinn með sjálfsafgreiðslu. Íslenski neytandinn í mér segir mér samt að það sé útópísk hugsun....Errm

Ég hvet alla sem eru komnir í jólaskap (ekki seinna vænna!) að taka þátt í æsispennani könnun hér á síðunni um jólamat, íha!W00t


Æ, æ, ó og aumingja ég....

Ég var orðin aum í hálsinum þegar ég kom heim úr vinnunni á föstudaginn. Eyddi laugardeginum í slappleika á sófanum og hrikalega verki í hálsinum. Ef maður tekur verkjalyf slær það nóg á verkina svo ég geti kyngt, drakk te í lítravís þann daginn.

Var svo hrikalega illt í dag og farin að hafa áhyggjur af eyrunum (ég mun ekki gleyma eyrnabólgunni sem ég fékk í fyrra meðan ég lifi) þannig ég dreif mig upp á læknavakt. Komst í gegnum umferðaröngþveiti kaupóðra Íslendinga í Smáratorginu, beið í klukkutíma eftir að komast að og læknirinn færði mér þau gleðitíðindi að það væri ekkert í eyrunum á mér. Bara væn strepptókokkasýking í hálsi.Frown

Þar sem ég hef ofnæmi fyrir pensillíni (ekki nóg með að ég fengi sársaukafulla eyrnabólgu í fyrra, ég fékk líka heiftarleg útbrot af lyfjunum) þurfti ég að fá annað sýklalyf, 3ja daga skammtur af því fæst á litlar 3 þúsund krónur, kostakjör!Pinch

Fór og fékk lánaða Friends-þætti og DVD-myndir hjá bróður mínum, svona til þess að hafa ofan af fyrir mér á morgun.

Góðar stundirWink


Dótaæði og kryddkaka

pic_toysGvöööð hvað ég er sammála ádeilu Spaugstofumanna um dótabúðina Ísland, þetta leikfangaverslanaæði er alveg makalaust! Hvað er eiginlega markaður fyrir margar dótabúðir á Íslandi? Shocking

Það var viðtal við Kristínu Helgu Gunnarsdóttur rithöfund í einhverju blaðinu um daginn þar sem hún auglýsti eftir slíku æði og biðröðum fyrir utan bókabúðir á Íslandi. Ég er henni hjartanlega sammála, bæði í orði og á borði. Ég er ekki búinn að kíkja inn í þessar plastleikfangabúðir(og ætla mér heldur ekki að gera það í nánustu framtíð) en ég held áfram að gefa börnum bækur, spil og púsluspil á gjafir. Ekki svo að skilja að ég sé algjörlega á móti plastdóti, það eru bara aðrir sem sjá um að gefa börnunum svoleiðis, börnin fá harða spila- og bókapakka frá mér!Wink

Og í framhaldi af pakkaumræðu er rétt að geta þess að ég er kominn í jólagírinn, aðeins byrjuð að stelast í jólalögin og svo fengum við Kjartan bróðir okkur jólaöl og kryddköku í gær, nammi namm. " It´s beginning to look a lot like christmas...!"


"Snjókorn falla, á allt og alla...!"

Það er skemmtilega viðeigandi að það hafi byrjað að snjóa síðasta sumardag og svo snjóaði fyrst almennilega fyrsta vetrardag. Börnin gleðjast og gleðihróp barna sem leika sér úti hafa ómað um hverfið undanfarna daga (sem betur fer er ekkert dekkjaverkstæði í hverfinu þannig að ekki hafa brotist út nein slagsmálWink).

Í gær fagnaði ég enn einu aldursári, því 24.! Jafnaldrar mínur dæstu "pældu í því hvað við erum orðinn gömul!" og þeir eldri reyndu að muna hvað þeir voru að gera í lífinu þegar þeir voru bara 24 og í fullu fjöri!

Það skemmtilegasta við að eiga afmæli er að maður drífur sig í að hringja í alla vini sína og býður þeim í heimsókn. Maður ætti sennilega að gera þetta einu sinni í mánuði en ég dríf allavegana að þessu einu sinni á ári´! Svo er fólk ótrúlega yndislegt að muna eftir þessu og sendir mér sms eða póst, það er líka gamanHeart

En núna ætla ég að skella í mig ljúffengu pasta a la Jens og svo er húsfundur í kvöld, íha!GetLost


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

BulluKolla

Skoðanir og sögur í hversdagslífinu.

Höfundur

Kolbrún Guðríður Haraldsdóttir
Kolbrún Guðríður Haraldsdóttir

29 dagar til jóla

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • vika17 030
  • vika17 029
  • vika17 017
  • vika17 016
  • vika15og16 174

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband