Færsluflokkur: Bloggar

Fimmta árstíðin- jólin...

christmas_funny_picture_11Það hefur sennilega ekki farið framhjá neinum að árstíðin jól er að nálgast. Það fyrsta sem mætir manni í verslunum eins og Hagkaup og Rúmfó er jólavarningur í löngum röðum. Svo var Ikea að auglýsa jólaknús.

Ég man nú þegar jóladótið sást fyrst í búðum í kringum afmæli systur minnar í lok nóvember en ekki fyrir afmælið mitt, sem er í lok október (áhugavert hvað afmæli eru góður tímamælikvarði hjá börnum...).

Ég verð samt að viðurkenna að ég er farinn að hlakka til jólanna, stóð mig t.d. af því að vera raula jólalög um daginn. Þannig togast á skoðanirnar um að jólin eigi bara að vera mánuður en ekki árstíð og tilhlökkunin og gleðin yfir jólunum. Ég er allavegana farin að láta mig dreyma um fallegan krans á útidyrahurðina, falleg jólaljós í skammdeginu og skipulagningu jólagjafainnkaupa. Ég á líka pottþétt eftir að kíkja á jóladótið í Ikea í þessari viku....Joyful


Við mælum með Fjalakettinum

259408Ég, Jens og Kjartan matgæðingur fórum út að borða í gær. Tilefnið var að athuga veitingastaðinn þar sem Jens er búinn að fá vinnu, Fjalaköttinn á Hótel Centrum. Við smelltum okkur á þriggja rétta máltíð sem varð eiginlega fimm rétta því við fengum bæði smakk fyrir matinn og auka-eftirrétt! Við pöntuðum öll mismunandi rétti og þeir voru allir hrikalega góðir, eina sem hægt var að setja út á var humarsúpan. Jens kippir því nú í liðinn þegar hann mætir á svæðið.Wink

Þrátt fyrir að skammtarnir væru temmilegir vorum við sprengsödd eftir réttina fimm, ég varð að losa beltið aðeins í bílnum á leiðinni heim, ég var alveg að springa!Shocking

Okkur Kjartani finnst það líka sárabót að þótt Jens hætti á Geysi (en þar erum við Kjartan fastakúnnar) er hann að fara á annan góðan veitingastað, bara örlítið dýrari!


Kolla viðutan

Það er ótrúlegt hvað maður getur misst af, ég uppgötvaði semsagt fyrir klukkutíma (átta um kvöld) að það væri komin ný borgarstjórn í Reykjavík!FootinMouth

Kjartan bróðir er svo hneykslaður að ég hafi misst af öllum látunum í dag að hann er ennþá að ná sér. Ég er samt ekki frá því að það sé bara fínt að missa af svona látum, ég var bara í vinnunni og svo kom ég heim og las gamlar fréttir í dagblöðunum og hafði ekki hugmynd um öll lætin í fjölmiðlum.

En núna er ég semsagt komin í samband við umheiminn og er ennþá að melta þetta og mynda mér skoðun á nýju borgarstjórninni.

Yfir og út frá Kollu viðutan.Wink


Flísin og bjálkinn

Kominn tími á nýtt blogg úr Grafarvoginum. Kennarinn er bara búinn að vera mjög upptekinn í vinnunni eins og við má búast svona þegar maður er að byrja. Við erum með heimasíðu sem að þið getið kíkt á, þar eru myndir og svolítið um það sem við erum að gera í skólanum.

Ég hef svolítið verið að fylgjast með umræðunni í fjölmiðlum um afgreiðslufók sem talar ekki íslensku. Þó að ég hafi nú aldrei gengið út þegar ég er afgreidd á ensku verð ég samt að viðurkenna að ég er orðin langþreytt á þessu og finnst stundum eins og það sé verið að hafa mann að fífli. Ég bæði veit og skil að það er mjög erfitt að ráða fólk í vinnu en stundum er fólkið ekki hæft til að vinna vinnuna sína ef að það hefur litla sem enga íslenskukunnáttu.

Dæmi:

1.Ég var í biðröð á kassa í Bónus. Á undan mér er gömul kona sem að vill greiða með peningum en afgreiðslukonan kunni ekki að segja upphæðina á íslensku. Kassakerfið í Bónus er svo frábærlega hannað að þegar maður er kominn að því að borga sér maður ekki á kassaskjáinn. Gamla konan vissi því ekki hvað hún átti að borga og afgreiðslustúlkan gat ekki sagt henni það. Því varð ég að segja gömlu konunni hvað hún átti að borga. Í þessu dæmi má svo rökræða um hvor eigi sökina, gamla konan sem vildi borga með peningum en ekki korti eða afgreiðlustúlkan sem kunni ekki að segja "2.387 krónur" á íslensku.

2.Allt síðasta skólaár tókst ekki að ráða neina skólaliða í skólann þar sem ég vinn. Núna er búið að ráða tvær yndislegar og brosmildar stúlkur sem því miður kunna ekki stakt orð í íslensku og reyndar talar bara önnur þeirra ensku. Ég veit ekki betur en þær þrífi afbragðsvel en ég set spurningarmerki við gæslu-hluta starfs þeirra, þ.e. í skógeymslum og frímínútum. Vissulega geta þær brugðist við ef einhver slasast en með enga íslenskukunnáttu geta þær ekki að öðru leyti hjálpað eða skipt sér af nemendum þegar þess er þörf.

Í þessum tveimur dæmum finnst mér starfsfólkið ekki vera hæft til að sinna sínu starfi vegna tungumálaerfiðleika. Um leið skil ég þann vanda sem stjórnendur eru þar sem enginn fæst til vinnu og þetta er illskásti kosturinn í stöðunni.

Samt finnst mér það lágmarksþjónusta að vera þjónustuð á íslensku á Íslandi, með eða án hreims skiptir mig engu máli!Wink 

Og þegar að ég er búin að skjóta svona fast finn ég fyrir bjálkanum í auganu, ég ætti kannski að líta mér nær.....


Minn maður!

 Vildi bara auglýsa minn mann, nafnið hans er allavegana í auglýsingum eins og þessari sem birtist í Fréttablaðinu í gær. Ég hvet alla til að skella sér á Geysi bistro/bar og uppgötva Þjóðverjann í sér með því að prófa súrkálið og "Wiener Schnitzel"(engar kvaðir eru um að mæta í leðurbuxum eða "lederhosen"). Wink

Góðar stundir og Guten Appetit!


Uggi í "Út og suður"

Sigga vinkona hringdi í mig áðan og sagði mér að Uggi vinur okkar væri í Sjónvarpinu. Við unnum með Ugga á Hallormsstað og höfum meira að segja hitt hann öðru hverju síðan þá. Uggi er stórmerkilegur heimsborgari sem hefur bæði siglt um höfin sjö og ferðast í kringum hnöttinn landi og í lofti. Fyrir mér er Uggi yndislegasti og sannasti hommi sem að ég hef hitt (enda hamingjusamlega giftur Gauta sínum) þrátt fyrir að hafa unun af því að klípa í kvenmannsrassa!LoL

Hérna getið þið séð hann í "Út og suður".


Símsvörunarþjónusta Kolbrúnar

Á sunnudaginn ákváðum við Jens aðð verðlauna okkur fyrir akkúrat ekki neitt með því að fara út að borða. Kjartan matgæðingur kom að sjálfsögðu með og nýji kínverski staðurinn á Vesturgötunni varð fyrir valinu (þar sem Naustið var).

Við fengum strax góða tilfinningu; staðurinn er smekklega innréttaður, sem er mjög sjaldgæft á asískum veitingastöðum á Íslandi og þjónustan kom vel fyrir t.d. opnuð fyrir manni hurðin þegar maður gengur inn. Á meðan við skoðuðum matseðilinn hringdi síminn. Eftir augnablik kom yfirþjónninn að borðinu okkar og spurði hvort að við töluðum íslensku. Ég játaði og hann spurði hvort ég gæti aðstoðað konuna í símanum. Ég tók við símanum og breyttist á augabragði í starfsmann The Great Wall. Í símanum var gömul kona sem talaði frekar óskýrt og skrollaði á r-unum. Hún kvaðst hafa gleymt peysunni sinni þarna fyrr um daginn. Ég spurði þjóninn hvort hann kannaðist við það en gerði það ekki. Kellu fannst það ófullnægjandi og sagði mér mjög nákvæmlega frá heimsókn vinkvennanna á staðinn, þ.á.m. var ein fædd árið 1918!LoL Að lokum tókst mér að sannfæra kellu um að "við" myndum hringja í hana ef að peysan fyndist, símanúmerið hennar sæi ég á skjánum á símanum. Um leið og ég lagði á varð mér litið á skjáinn, þar voru bara kínversk tákn.......

Þessi símsvörunarþjónusta var örugglega það fyndnasta þetta kvöld en maturinn var líka mjög góður, strákarnir fengu sér hrikalega góðar súpur, Kjartan fékk sér geggjaðan humar með hvítlauk og engifer og Jens andarbringu. Eftirrétturinn var líka eftirminnilegur. Við pöntuðum "steiktan ís" og fengum vanilluís sem var búið að rúlla uppúr hunangi og sesamfræjum. Mjög spes, alls ekki vont, en um leið ótrúlega skrýtiðWoundering Allavegana er mér óhætt að mæla með þessum stað!Smile

Og núna ætla ég að fara hvíla mig því mér tókst að næla mér í fyrstu flensu haustsins og meira að segja litlar bloggfærslur verða að fjallgöngum þegar maður er lasinn...

 


Spurning um að skella sér?

Áhugaverð frétt inn á Vísi.is:

Vilja stórar og æsandi geirvörtur

Brjóstastækkanir hafa lengi verið gerðar. Raunar eru fáir líkamshlutar eftir sem læknar hafa ekki verið fengnir til þess að krukka í. Til þess að stækka eða fegra. Og nú eru stórar geirvötur að komast í tísku. Lýtalæknirinn Bruce Nadler í New York hefur sérhæft sig í að stækka geirvörtur. Hann segir að konurnar sem í slíkar aðgerðir komi vilji fá "ögrandi" útlit fyrir barm sinn.
Í dag bregður sjálfsagt engum við að heyra að karlmenn koma einnig til Nadlers til þess að láta stækka geirvörtur sínar.
Þeir eru flestir haldnir geirvörtu blæti og vilja fá stærstu og flottustu geirvörtur sem völ er á. Geirvörtustækkunin fer oftast þannig fram að collageni er sprautað í þær.
Einnig er talsvert um að brjósk sé tekið úr eyrum viðkomandi og notað til að stækka.

Ég verð að spyrja Jens hvort að hann vilji að ég skelli mér, eða kannski getum við bara gert þetta bæði!LoL


Kominn tími til.....

Jæja, mín bara hætt á leikskólanum, búin að fara í sumarfrí og vinna heila viku sem kennari!

Það var að sjálfsögðu ákveðinn tregi við að kveðja Sunnuborgina; samstarfsfólkið og auðvitað börnin. Ég get samt ekki neitað að ég var voða glöð að komast í smá sumarfrí, heila 7 daga! Fríið var hæfileg blanda af afslöppun og að koma ýmsum hlutum í verk Wink Svo fengum við frábæra heimsókn, Bianca systir Jens, kíkti í heimsókn í heila viku og við brunuðum norður með kellu til að sýna henni undur Íslands. Ekki skemmdi fyrir að við fengum heilt einbýlishús með öllu lánað á Akureyri þannig að það fór mjög vel um okkur (takk Örvar&IngaKissing). Svo skoðuðum við helstu perlur Norðurlands, svona, þær sem eru aðgengilegar á bílnum mínum! Myndir úr ferðinni má sjá í Myndaalbúminu.

Já, og ég er byrjuð í Víkurskóla. Fyrsta vikan og rúmlega það er námskeið og undirbúningur, en þetta leggst bara allt vel í mig.Smile

Og svo var það nottla hin árlega Menningarnótt í gær. Jens var að sjálfsögðu að vinna og það var hreinlega snælduvitlaust að gera, ég held að hann hafi tekið meira á en maraþonhlaupararnir í gær! Ég hafði það hinsvegar gott og naut menningarinnar í góðra vina hópi. Endilega kíkið á myndir í myndaalbúminu!

Yfir og út í bili...


Ég á líka nýjan frænda!

feðgarnirLoksins kom bumbubúinn í Kanada í heiminn, sá lét nú bíða eftir sér! Þessi yndislegi strákur kom í heiminn 5. ágúst og var hvorki meira né minna en 56 cm og rúm 4 kíló. Öllum í fjölskyldunni heilsast vel! ;-)´

Á myndinn er Guðbjartur bróðir með báða strákana sína, hinn nýfædda Ara Thomas og Finn Markus sem varð einmitt 1 árs í júní! Hamingjuóskir til fjölskyldunnar í KanadaSmile


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

BulluKolla

Skoðanir og sögur í hversdagslífinu.

Höfundur

Kolbrún Guðríður Haraldsdóttir
Kolbrún Guðríður Haraldsdóttir

29 dagar til jóla

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • vika17 030
  • vika17 029
  • vika17 017
  • vika17 016
  • vika15og16 174

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband