Færsluflokkur: Bloggar

Útlitið eða innrætið?

Ég horfi stundum á Britain´s next top model. Ekki af því að mér finnist gaman að sjá keppendurna rífast heldur finnst mér myndatökurnar svo skemmtilegar og flottar.

Einn dómarana er íslensk, Hugrún Ragnarsson eða Huggy. Ég sé að það eina sem fólk virðist taka eftir (alla vegana hér á Moggablogginu) er efri vörin á konunni, sem er vissulega óvenjuleg og heldur stór fyrir mína parta. En konan má eiga það að hún fellur ekki í fjöldann, þessi vör er einskonar vörumerki hjá henni. Og ef hún er ánægð með hana þá er þetta bara hið besta mál.

Fyrir nokkrum árum kom hún stundum við í sjoppunni þar sem ég vann og hún er mér eftirminnileg af þremur ástæðum:

  1. Hún keypti mikið magn af orkudrykkjum og kaffi, hefur sennilega verið að vinna að einhverju ljósmyndaverkefni
  2. Hún er með eftirtektarverðar varir og magnaðan six-pack á maganum
  3. Hún var einstaklega kurteis og almennileg, ég man að hún hrósaði mér fyrir hvað ég væri með fallegt hárKissing

Mér hefur reyndar fundist hún í þáttunum vera góður dómari, sérstaklega í síðasta þætti þar sem hún tók myndir af keppendunum. Og hvað sem vörinni líður get ég ekki séð annað en þetta sé hin almennilegasta kona og fær í sínu fagi. 


mbl.is Tískan er harður bransi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af tækni og bilunum

Hæj esskurnar,

ég er ekki búin að gleyma ykkur, ég og tölvan vinkonan mín höfum fjarlægst töluvert í góðviðrinu, auk þess sem Moggabloggið hrundi, þar á meðal síðan mín eins og glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir. Og núna þegar hún er komin í lag ætlaði ég aldeilis að taka mig á og hlaða inn myndunum frá Tenerife, en það er eitthvað bilað, kom þó heilum 9 myndum inn!Errm 

Þið verðið því að bíða eitthvað lengur eftir sumarmyndunum!

Í dag hefst síðasta vikan í sumarfrínu mínu góða, ég ætla aldeilis að njóta hennar! Um leið hlakka ég til að fara vinna og takast á við spennandi verkefni, þó það verði eflaust mikil viðbrigði að stilla vekjaraklukkuna á morgnana og vinna heilan dag!Wink

Jæja, látum þetta duga í bili, svona tæknifrústeringar eru mér ekki mikill innblástur.Undecided


Komin heim í heiðardalinn

Jæja, þá erum við hjónaleysin (vá, það hljómar eins og við séum fimmtug!) komin heim frá sólarparadísinni Tenerife.

Fríið var yndislegt í alla staði og vel heppnað. Sum ykkar undrast kannski bloggleysið í fríinu en það er ekki ráðlegt að birta upplýsingar um slíkt á opinni vefsíðu fyrr en við heimkomu, ættingjar ræningjanna Kaspers, Jespers og Jónatans úr Kardimommubænum hafa nefnilega sama lífsviðurværi og þeir, bara í Reykjavík.

Við og allir hinir Íslendingarnir flugum með spænska "gæðaflugfélaginu" FUTURA. Í leiðindum okkar á flugvellinum gerðum við Jens veðmál um hvort að við fengjum að heyra "Velkomin heim" við lendingu. Ég sagði að það væru engar líkur á því hjá spænsku flugfreyjunum en Jens vildi meina að upptaka af ómþýðri rödd Íslendings myndi tilkynna okkur það í hátalarakerfinu. Okkur að óvörum var ein íslensk flugfreyja um borð og líkurnar mér því í óhag. En við lendingu tilkynnti þessi elskulega stúlka  í hátalarakerfið " Velkomin til Keflavíkurflugvallar!"LoL HAHAHA!

Við hefðum átt að veðja um hver myndi þurfa að sjá um allan þvottinn við heimkomu...Pinch ARGH!


Það er nú svoddan

Ég er svo afslöppuð í sumarfríinu að ég hef nær ekkert tjáð mig í netheimum.

Get þó sagt ykkur að ég er búinn að ráða mig á leikskólann Fífuborg og mun sjá um elstu barna verkefnin þar. Það leggst mjög vel í mig og ég hlakka til að byrja í ágúst.Smile

Jens var krafinn um skilríki í Ríkinu um daginn, þótti helst til unglegur til þess að kaupa áfengi!Grin Sem betur fer tók hann þessu sem hrósi og afhenti unglegu afgreiðslustúlkunni og þungbrýnda öryggisverðinum fúslega persónuskilríki.Cool

Annars leikur lífið og veðrið við okkur Jens, við höfum það mjög gott í sumarfríinu og brátt leggjum við land undir fót og förum í túristaleik á Tenerife.

Svoddan er nú þaðTounge


Ég fer í fríið, ég fer í fríið, ég feeeeeer í fríið!

Já, mínir kæru lesendur,

vorið er komið (og farið) og grundirnar gróa, það er svo sannarlega komið sumar því ég er komin í sumarfrí!Smile

Það sem ég hef afrekað nú þegar í fríinu:

  • afslöppun og leti
  • koma íbúðinni í mannsæmandi horf
  • fara með stelpunum á hina æðisgengnu "Sex and the City" bíómynd
  • kaupa og planta sumarblómum
  • sækja um vinnu

Það er margt annað skemmtilegt (nú eða nauðsynlegt en ekkert sérstaklega skemmtilegt eins og að þrífa bílinn) á aðgerðalistanum og það er yndislegt að hafa tíma til þess að sinna því.

Og þar sem ég er svona tímarík má alltaf hringja í mig fyrir verslunarferðir, hjólatúra og kubb-kvöldSmile


Britain´s got talent!

0766_160802_BritainsGotTalent_logoÉg og Kjartan bróðir erum erum miklir aðdáendur þessara hæfileikaleitarþátta. Núna var einmitt þáttaröðinni á Bretlandi að ljúka og je minn hvað fólk er hæfileikaríkt!Happy

Ég hreinlega get ekki gert upp á milli Andrew Johnston og Faryl Smith, þau eru bara 13 og 14 ára. Mér fannst líka Escala fiðlugellurnar æðislegar! Og vinningshafinn George Samson er heldur ekki hæfileikalaus með öllu!

Og þetta er grínlaust hæfileikaríkast hundur í heimi, það er eins og hann sé fjarstýrður!


Reiði goðanna?

Hvar varst þú þegar skjálftinn reið yfir? Ein af þessum upplifunum sem maður mun seint gleyma, líkt og skjálftanum árið 2000 og árásinni á Bandaríkin 11. september.

Ég var nú bara í vinnunni, allir að hamast við að setja inn einkunnir, svo byrjuðu lætin. Ég upplifði þetta sem heila eilífð og var á leiðinni út þegar látunum loksins linnti.

Merkilegast í þessu öllu er að það skyldi enginn slasast alvarlega. Í vikupistli sínum í Fréttablaðinu spyr Þráinn Bertelson sig hverjum goðin hafa reiðst í þetta sinn en ég held að goðin hafi bara ekki reiðst, heldur haldið verndarhendi sinni yfir okkur.

Þau gætu reyndar líka verið að benda okkur á að Vestfirðirnir eru mun öruggara búsvæði jarðskjálftalega séð.

Eða einfaldlega viljað leysa kreppuna með róttækum og skjótvirkum aðgerðum, það eru jú ærin verkefni fyrir hendi í uppbyggingu!

 


Áfram Ísland!

Það var að sjálfsögðu Evróvisjón gleði í Breiðuvíkinni, margt góðra gesta með girnilegar veitingar. Auðvitað vorum við pínulítið skúffuð að alþjóð hafi ekki kunnað að meta íslenska lagið jafn vel og Danir, en það var bót á máli að hinn rússneska Natasha var með okkur og við gátum þó samglaðst henni. Ég held að Rússar hafi heldur aldrei áður unnið Evróvisjón,  en  ég trúi að sjálfsögðu áfram að "við sigrum að ári!"Cool

Ég gerði skoðanakönnun hjá bekknum mínum á föstudaginn, í hvaða sæti Ísland myndi lenda í Evróvisjón. Rúmlega helmingur giskaði á fyrsta sætið og flestir á 1.-10 sæti, mjög krúttlegt. Ég er handviss um að trú þeirra hafði góð áhrif, annars hefðum við kannski endað í 16. sæti í stað fjórtánda!Halo


Afsakið bloggleysið

Kæru lesendur nær og fjær,

afsakið bloggleysið. Er bara búin að vera svo andlaus undanfarið. Get þó fagnað með ykkur að sumarið er komið á Íslandi (umhverfislega séð) og eftir 2 og hálfa viku líka andlega séð, þá verð ég nefnilega komin í langþráð sumarfrí, jei!Wizard

Og svo er það auðvitað mál málanna, Evróvisjón! Ég segi að sjálfsögðu ÁFRAM ÍSLAND fyrir morgundaginn og auðvitað laugardaginn líka. Ég held að okkar tími sé kominn (nú, ef ekki, þá mun hann koma!)Grin

Yfir og út í biliSmile


Í dag varð ég Íslendingur

Sumum ykkar finnst fyrirsögnin kannski heldur mótsagnakennd en ég held að í dag sé ég orðinn sannur Íslendingur.

Þegar ég ólst upp var efnahagsástandið á Íslandi ekki alltaf gott. En frá því ég hef haft eitthvað með peninga að gera hefur efnahagslífið á Íslandi verið á blússandi ferð og allir haft nóg á milli handanna. Undan farnar vikur hefur lítið annað verið í fréttum en álit hins og þessa á efnahagnum og smátt og smátt hefur síast inn að núna séu aðhaldstímar í vændum. Engu að síður er það eins og að fá kalda tusku í andlitið að skrá sig inn á heimabankann og sjá að húsnæðislánin hafa hækkað um 350 þúsund á einu bretti.

Því líður mér núna eins og sönnum Íslendingi sem fær að upplifa verðbólguna og verðtrygginguna á eigin skinni.

Sem betur fer höfðum vit á því að spara til mögru áranna, nú eru þau runnin upp og þá er gengur þetta, mánuð og mánuð í senn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

BulluKolla

Skoðanir og sögur í hversdagslífinu.

Höfundur

Kolbrún Guðríður Haraldsdóttir
Kolbrún Guðríður Haraldsdóttir

29 dagar til jóla

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • vika17 030
  • vika17 029
  • vika17 017
  • vika17 016
  • vika15og16 174

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband