Færsluflokkur: Bloggar
Þriðjudagur, 6. janúar 2009
Myndir af krúttinu!
Við María vinkona fengum að heimsækja nýbökuðu foreldrana og Litla-Krútt á fæðingardeildina á Akranesi í dag. Eins og við var að búast eru foreldrarnir í skýjunum og barnið alveg hrikalega sætt og dúllulegt. Litla- Krútt er vær og góður strákur og öllum heilsast vel.
Örfáar myndir í myndaalbúminu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 5. janúar 2009
Ligga, ligga lá!
Í dag bárust mér gleðitíðindi! Klukkan 14:11 fæddist Litla-Krútt Sigurborgar- og Bjössason. Hann vegur 15 merkur og er heilir 54 cm. Móður og barni heilsast vel, og ég held líka föðurnum sem átti ekki síður fjörugan sólarhring. Vonandi fæ ég bráðum myndir af litlu fjölskyldunni til þess að deila með ykkur.
Ég fylltist líka gleði þegar ég frétti að Kaupþing ætlaði að höfða mál gegn breska ríkinu til þess að þakka þeim fyrir að beita hryðjuverkalögunum á þá. Jess!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 24. desember 2008
Gleðilega hátíð!
Kæru lesendur, ættingjar og vinir,
Gleðileg jól og farsælt komandi ár.
Takk fyrir öll skemmtilegu og fallegu athugasemdirnar hér á blogginu á árinu sem er að líða.
Hafið það sem allra best yfir hátíðarnar,
Jólaknús,
BulluKolla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 24. desember 2008
Fuglahvíslarinn
Um daginn villtist lítill fugl inn í stigaganginn okkar, sem er bara opinn niðri. Það fyrsta sem ég tók eftir var fugladrit um allan stigann (er það að vera skíthræddur í orðsins fyllstu?) og svo sá ég fuglsgreyið fljúga hvað eftir annað á veggina og glerið. Hann settist reyndar líka á hurðakransinn hjá nágranna mínum, fór bæði fuglinum og kransinum mjög vel. Aldrei þessu vant fór Jens í vinnuna á eftir mér og ég galaði því á hann " Jens, bjargaðu fuglinum!" Jens skildi skiljanlega ekki í fyrstu um hvaða fugl ég væri eiginlega að tala en fór svo og fékk fuglinn til þess að fylgja sér niður og út, tröppu fyrir tröppu.
Fuglinn er því frjáls en stigagangurinn heldur skítugur.
P.S.
Litli fuglinn hvíslaði því að mér að hann hefði séð til ónefnds leikara gæða sér á vinsælasta hádegisverðarhlaðborðinu í hæsta veitingastað bæjarins í síðustu viku!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 13. desember 2008
Krúttlegt
Síðustu nótt kom Stekkjastaur til byggða og nú er Giljagaur á ferli að lauma litlum gjöfum í alla skóna sem bíða úti í glugga.
Synir samstarfskonu minnar voru að sjálfsögðu vaknaðir fyrir allar aldir í morgun og glöddust mikið yfir því sem leyndist í skónum þeirra. Svo varð þeim litið út um gluggann og æptu yfir sig af gleði, þeir sáu sporin eftir jólasveininn í snjónum hús frá húsi í götunni, þetta var sko alvöru sönnun fyrir tilvist hans!
Mamma þeirra hló inni í sér og velti fyrir sér hvort að blaðberinn vissi að hann væri orðin að jólasveini!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 9. desember 2008
Skúffelsi
Við hjónaleysin ætluðum aldeilis að vera framtakssöm í dag og koma dálitlu í verk sem hefur staðið til í all nokkurn tíma. Því brunuðum við niður í þjóðskrá og fylltum samviskusamlega út eyðublað til þess að skrá okkur í sambúð. Réttum svo vingjarnlega ríkisstarfsmanninum útfyllt eyðublaðið (nokkuð stolt yfir framtaksseminni). Ríkisstarfsmaðurinn gerir eitthvað dularfullt í tölvunni sinni og tilkynnir svo okkur einfeldingunum að við verðum að koma með pappíra frá Þýskalandi sem staðfesti hjúskaparstöðu Jens.
Árans, höfðum ekki gert ráð fyrir þessu!
Og ekkert varð úr framtaksseminni, nú þurfa nefnilega tvö kraftaverk að gerast:
- Jens þarf að eiga frí í vinnunni svo hann komist í þýska sendiráðið og geti beðið um pappírana.
- Hann þarf að komast þangað á mjög tæpum opnunartíma þess, minnir að það sé opið á virkum dögum milli 10 og 12
Að því ógleymdu að Þjóðverjar eru heimsmeistarar í skriffinnsku og því mun þetta örugglega kosta vesen sem enginn sá fyrir.
Til þess að jafna skúffelsið út fórum við á Ruby Tuesday og fengum okkur ljúffengan kalkúnaborgara með avacadói.
Árans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 8. desember 2008
Auglýsingar
Get ekki stillt mig um að auglýsa tvennt fyrir ykkur:
1.Verslunina Spilavinir á Langholtsveginum. Frábær búð með frábæru spilaúrvali og þjónustu, þær kenna manni spilin! Spil er líka frábær jólagjöf! Get mælt með t.d.
- Jungle Speed, ef þið eruð ekki þegar heitir aðdáendur munuð þið verða það
- Bohnanza, við erum búin að vera með æði fyrir því í marga mánuði!
- Rage, a wicked whist with a twist, eins og stendur á pakkanum!
- Ubongo, rýmisgreind og hraði, æði!
2.Nýju skoðanakönnunina hérna á blogginu, Hvað er í jólamatinn?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 2. desember 2008
Gullkorn
Tveir fimm ára drengir sitja við matarborðið í leikskólanum. Annar þeirra er að segja frá ljósinu sem að fólk sér þegar það deyr og fer upp til himna. Hinn skllur þetta ekki alveg og spyr: "Bíddu, er þetta svona blátt ljós?"
-Já!
"Er það svona kringlótt?"
Já, einmitt þannig!
"Nú já, þú meinar friðarljósið!"
Annars er allt gott að frétta héðan úr Breiðuvíkinni. Nóg að gera hjá öllum við jólaundirbúning og vinnu. Ég er meira að segja búin að setja jólaseríu á svalirnar (með dyggri aðstoð Siggu vinkonu) og baka eina tegund af smákökum! Og hlusta sjálfsögðu á jólalög daginn út og inn og syng þau hástöfum á leikskólanum!
Já, nú minnir svo ótalmargt á jólin, hvert sem litið er....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 20. nóvember 2008
Svo bregðast krosstré.....
Ég fór í árlegt eftirlit til tannsa í vikunni. Sagði við þær í vinnunni að ég yrði eldsnögg, það væri sko aldrei neitt að tönnunum hjá mér!
Nema í þetta sinn var oggu ponsu lítil skemmd. Og það þurfti að deyfa. Og bora.
Ég var heldur lengur hjá tannsa en áætlað var (og líka heldur dýrara) og núna er ég með mína fyrstu viðgerðu tönn, 25 ára gömul! Tannlæknirinn gerði nú svolítið grín af mér en var líka mjög vingjarnlegur og útskýrði þetta allt fyrir mér, byrjandanum.
Núna skil ég fólk sem líkar ekki vel við tannlækna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 29. október 2008
Afmæli!
Allir muna hvað jólin voru miklu skemmtilegri þegar maður var barn og afmælið manns líka.
Sem kennari á leikskóla naut ég þeirra forréttinda að upplifa afmælisdaginn með börnunum (og auðvitað yndislega samstarfsfólkinu mínu). Þau vildu endilega syngja fyrir mig (3 heil erindi) og ég fékk mörg falleg faðmlög og slefkossa. Sumum fannst þetta svo merkilegt að þeir óskuðu mér til hamingju í tíma og ótíma allan daginn
Eftir nokkrar vangaveltur komust þau líka að því að það væri ekki viðeigandi að kalla mig afmælisbarn, heldur afmæliskonu.
Takk fyrir allar hlýju kveðjurnar ykkar, í síma, á fésbókinni og í huganum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
BulluKolla
29 dagar til jóla
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar