Færsluflokkur: Bloggar
Sunnudagur, 19. apríl 2009
Pæling
Í þjóðfélaginu kemur öðru hverju upp jafnréttisumræða t.d. um kynbundinn launamun. Stundum finnst manni þessi umræða ýkt og líka leiðigjörn, alltaf sömu klisjurnar. Umræðan hefur reyndar ekki verið áberandi undanfarið enda um nóg annað að ræða í þjóðfélaginu í kreppu og kosningum.
Mig langar samt að deila með ykkur jafnréttis- og kynjatengdum vangaveltum mínum:
Ég er með þrjú dæmi úr bíómyndum/sjónvarpsþætti þar sem konur beita menn ofbeldi. Þeir eru allir elskhugar kvennanna og hafa gert eitthvað á þeirra hlut.
- Í síðasta þætti af danska gæðadramanu Sommers hrindir ólétt kona svikulum barnsföður sínum niður nokkrar tröppur þegar hann reynir að leita sátta eftir framhjáhaldið.
- Í Sex and the City bíómyndinni ber Carrie Big með risastórum blómvendinum eftir að hann guggnaði á að giftast henni. Mjög táknrænt þar sem hvít rósablöðin þeytast út um allt og liggja á víð og dreif eins og blóð.
- Í hágæðamyndinni The Notebook fara aðalsöguhetjurnar, Allie og Noah, að rífast. Hún gengur margoft að honum og slær til hans og krefur hann svara um framtíð sambandsins. Hann ver sig ekki heldur hörfar.
Allt eru þetta dæmi úr hágæða dramatísku efni. Ofbeldið er vægt en ofbeldi engu að síður þar sem konurnar hrinda, berja með blómum og slá til. Mennirnrnir verja sig varla og svara ekki í sömu mynt því að þeir "eiga þetta skilið".
- Vissulega eiga mennirnir í öllum tilvikum skilið að fá ærlegt orð í eyra en eiga þeir ofbeldi skilið?
- Ef við myndum snúa dæminu við, að karlarnir hefðu "danglað í " konurnar af sömu ástæðum, finnst okkur það í lagi?
- Eða er bara allt leyfilegt í ástum? Má maður bara "dangla í" elskhuga sinn ef hann gerir manni eitthvað slæmt, hvort sem það er karl eða kona?
Pæling...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 1. apríl 2009
180° snúningur
Þegar ég hóf nám í Kennaraháskólanum haustið 2004 fékk ég oftar en ekki bágt fyrir að velja mér slíka menntun, allir vita að kennsla er illa borguð. Meira væri nú vitið að velja viðskiptafræðina og fá mér almennilega vinnu í banka.
Vorið 2007 útskrifaðist ég og hefði getað fengið vel borgaða vinnu í banka en valdi þó að snúa mér að illra borguðu en öruggu (og skemmtilegu)kennslustarfinu.
Vorið 2009 er hefur allt snúist við. Allir vita að bankastarfsmenn hafa margir misst vinnuna en að það sé hætta á að margir kennarar missi vinnuna sína, það er staðreynd sem ég átti seint von á.
Áhugaverð frétt um ástandið í Reykjavík hérna á mbl.is. Ég verð að vera sammála Svandísi þegar hún segist efast um að starfsmenn skólanna hafi stungið upp á mörgum af þessum sparnaðaraðgerðum, t.d. eins og að fækka kennslustundum í 2.-4. bekk.
Alltaf kemur upp í huga mér sú staðreynd að ekki var hægt að leiðrétta laun kennara í góðærinu og því síður í kreppunni. Og núna geta kennarar ekki einu sinni verið öruggir með störfin sín því auðvitað eru skólarnir fyrsti staðurinn sem þarf að spara enda skiptir menntun barnanna litlu máli fyrir framtíð landsins....
Er það bara mér sem finnst þetta öfugsnúið?!?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 29. mars 2009
Peysuleitin mikla
Ég hef undanfarið saknað einnar flíspeysunnar minnar. Hef nú reyndar ekki mikið leitað að henni því venjulega finnst hlutirnir bara eftir nokkurn tíma.
Ákvað í dag að nú væri nokkur tími liðinn án þess að það bólaði nokkuð á flíspeysunni góðu og því tími kominn á leit.
Byrja á fataskápnum í svefnherberginu. Ekkert mín megin. Gæti hafa laumast með fötunum hans Jens, en nei, ekki þar. Forstofuskápurinn inniheldur ýmislegt forvitnilegt en ekki flíspeysuna mína.
Dettur í hug að lýsa eftir peysunni hér á bloggsíðunni, ég meina, kannski gleymdi ég henni bara einhversstaðar!?!
Kíki á kommóðuskúffuna með kokkafötunum, vona innilega að hún sé ekki þar því þá væri mjög mikil matar- og steikingarfýla af henni. Hjúkk, ekki þar.
Bíddu, hvað getur hún þá eiginlega verið? Ah, skoða þvottakörfunar, hvolfi úr þeim ilmandi óhreinum sokkum og fleiru girnilegu, en nei!
Þetta er mjög dularfullt. Er ég klofinn persónuleiki og man ekki eftir örlögum peysunnar? Höfum við verið rænd? Hvar er peysan!!??!!
Dettur í hug að gá aftur á slána í fataskápnum. Ekkert mín megin. en þegar kafað er milli jakkafatanna hans Jens, bíddu, bíddu, hvað leynist þar? Auðvitað flíspeysan góða!
En í alvörunni, af öllum stöðum, að hengja flíspeysu hjá sparifötunum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 2. mars 2009
Ríkidæmi
Rétt fyrir 2 mánaða afmæli Sveins Jörundar berast okkur í Breiðuvíkinni þær gleðifregnir frá Þýskalandinu að þar sé fædd lítil prinsessa. Hún er dóttir Biöncu (systur Jens) og mannsins hennar, sem heitir einnig Jens. Litla daman er 49 cm og 2700 grömm og fæddist rétt fyrir miðnætti þann 1. mars.
Og núna erum við því ekki bara Kolla frænka og Jens frændi heldur líka Onkel Jens og Tante Kolla. Mér finnst ég reyndar eldast með þessum frænku-titli, á hvoru tungumálinu sem er!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 25. febrúar 2009
Hugljómun
Prump, að reka við, fret hefur alltaf verið vinsælt og sífyndið umræðuefni í minni fjölskyldu, enda margt afburðarafreksfólk í þessari listgrein náskylt mér.
Listgreinin er svo háþróuð að ákveðnir stílar eru til. T.d. er deluxe hávært en lyktarlaust og silent but deadly andstæða þess eins og nafnið bendir til.
Ég hef þó stundum velt fyrir mér hvaðan þessir einstæðu hæfileikar koma; það er ekkert okkar með nein sérstök magavandamál eða borðar þrumara í hvert mál. Kannski má færa rök fyrir því að þetta séu erfðir?
Í söngstund á leikskólanum fékk ég hugljómun þegar Gamli Nói var sunginn. Gamli Nói kann nefnilega að strumpa Strump og lætur strumpinn prumpa! Og eins og allir vita erum við Strumpafjölskyldan ( reyndar notumst við oftar við Skrýpla-nafnið en það er jú sama bláa smáfólkið).
Takk Gamli Nói fyrir að gefa okkur þennan einstæða hæfileika!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 20. febrúar 2009
Skoðanakönnun og áróður
Hva, ma, ma, ma, maður er nú svolítið hissa á niðurstöðunni í skoðanakönnuninni minni hérna á síðunni, þar sem heilir 7 hafa tekið afstöðu til nýju ríkisstjórnarinnar, en 3 telja að vinstri stjórn sé vonlaus. Það finnst mér heldur neikvæð afstaða, sérstaklega í ljósi þess að það verður erfitt að slá þeirri gömlu við í klúðri. Því er ég sammála a) þetta þurfti að gerast og b) gefum þeim tækifæri.
Og fyrst að ég er byrjuð á svona pólitískum áróðri ætla ég að hvetja alla til að skrifa undir áskorun um stjórnlagaþing til að endurskoða stjórnarskrána á nyttlydveldi.is.
Hafið það svo gott á dögunum framundan en fyrir þá sem eru leiðir á þessum venjulegu daga heitum eins og laugardagur og sunnudagur geta þeir næstu daga talað um nammidaginn, konudaginn, bolludaginn, sprengidaginn og öskudaginn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 9. febrúar 2009
Heimilisgyðjan
Vinkonur mínar úr Kennó komu til mín í "saumaklúbb" í kvöld. Ég ákvað að láta hendur standa fram úr ermum og prófa eitthvað alveg nýtt, ég er þekkt fyrir fá einfalda og sívinsæla rétti en ekki nýjungagirni. Fletti upp í hinni óbrigðulu Kökubók Hagkaups og fann girnilega uppskrift að núggat-marengsköku. Skellti mér á það.
Gekk rosa vel að gera kremið, náttúrutalent í að þeyta í marengs. Smá bobbi, finn ekki botninn í annað springformið. Hringi í kokkinn. Hann segir mér að leita betur í skápunum. Þykist vera búin að leita af mér allan grun en til að vera alveg viss fer ég hálf inni í hornskápana (þetta eru kjánalegustu og ónotendavænustu hornskápar í alheimi) vopnuð vasaljósi. Rekst þar á ýmislegt forvitnilegt sem við höfum saknað, finn líka botninn. Set marengsinn í og í ofninn. Djö... hvað er ég dugleg!
Fer að púsla saman 3 hæða kökudiskinum fyrir snarlið. Hmm, hefði kannski átt að skoða það aðeins fyrr... en þetta hefst með hjálp leiðbeininganna.
Ofninn pípir, nú mun dýrðin líta dagsins ljós! En, eh, man það núna að maður baka marengs á bökunarpappír, ekki í formum. Því mun þessi vel bakaði marengs ekki komast í heilu lagi á kökudiskinn.
Umm, hvað gera ráðagóðar húsmæður þá!?!
Nú, einn af einföldu en vinsælu réttunum marengs (í þessu tilfelli heimabakaður og skafinn úr forminu) með rjóma og ávöxtum og súkkulaðibráð yfir.
Hjúkk!
Takk fyrir jákvæðnina Binna og Helena, þetta var ekki sem verst eftir allt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 3. febrúar 2009
Fréttir gerðar bærilegar
Ég horfði á tíufréttirnar á RÚV í gær. Þar var frétt um atvinnuleysið, að núna væri rúmlega 7% atvinnuleysi og 2 milljarðar hefðu verið greiddir út í atvinnuleysisbætur þennan mánuðinn. Þetta er að sjálfsögðu grafalvarlegt og því rætt við forstjóra Vinnumálastofnunar. Viðtalið er tekið heima hjá honum en í stað þess að stilla manngreyinu fyrir framan málverk eins og venjan er virðist hann standa í miðju húsi og það sést í straubretti og aðra hversdagslega hluti í bakgrunni. Og það fannst mér broslegt og gera fréttina bærilega.
En þegar á að giska 10-12 ára drengur rennir sér á gólfinu inn í myndina og verður svo mjög skrýtinn í framan þegar áttar sig á að það er verið að taka viðtal, þá hreinlega sprakk ég úr hlátri!
Þetta er kannski leiðin til að maður þoli þessar slæmu efnahagsfréttir endalaust, ég sendi þeim í Efstaleitinu hugskeyti....
p.s. ný skoðanakönnun!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 23. janúar 2009
Mótmælin
Mótmælin undanfarna daga hafa víst ekki farið fram hjá neinum. Ekki heldur leikskólabörnunum. Í gær voru nokkur í leik úti þar sem þau hentu grjóti í útiskúrinn og öskruðu "niður með ríkisstjórnina!". Aðspurð um athæfið sögðust þau vera að henda eggjum í Alþingishúsið. Og að ríkisstjórnin væri mennirnir sem réðu á Íslandi og þeir ættu að fara því þeir væru leiðinlegir.
Þá litum við kennararnir hvor á aðra og rifjuðum upp allt talið um að vernda börnin fyrir kreppuumræðunni. Átti það kannski ekki við um málefni tengd kreppukrabbameininu eins og mótmælum?
Allavegana er skjól fyrir því í leikskólanum, þar gengur lífið sinn vanagang og gullkorn eins og þetta verða til:
Kolla: Viltu færa kassann svo ég geti unnið í tölvunni?
Strákur: nei, maður segir vinnið.
Kolla: Nú, er það?
Strákur: Já, ætlarðu kannski að unna tölvunni!?! (og hnussaði!)
Þetta kalla ég sko sagnbeyingu í lagi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 8. janúar 2009
Fretrassinn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
BulluKolla
33 dagar til jóla
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar