Hlátur og grátur!

Ég er búin að eyða deginum í frábæra afþreyingu, lestur. Til dæmis er ég búin að lesa tvær barnabækur eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, ég er sko að taka kúrs í barnabókmenntum og þetta var heimaverkefnið, ekki oft sem að ég er svona viljug að lesa heima! Ég mæli sérstaklega með Fíusól gleðisprengju og sögunum um Binnu mína, þær eru alveg hrikalega fyndnarLoL 

Ég sat allavegana í sófanum áðan og grenjaði af hlátri í orðsins fyllstu merkingu en sem betur fer var ég bara ein heima og ekki á almannafæri eins og þegar ég var að lesa Bridget Jones 2 á Lækjartorgi forðum daga og fólk var farið að líta á mig hornauga og taka stóran sveig fram hjá mér, eins og öllu hinu skrýtna fólkinu á LækjartorgiW00t

Ég sé allavegana fram á að vera hrikalega dugleg að lesa á þessarri önn, allavegana fyrir Barnabókmenntirnar....


Godt nyt ar!

Við skötuhjúin ákváðum að taka okkur hvíld frá fjölskylduboðunum og smella okkur til Kaupmannahafnar yfir áramótin, bara sisvona!Heart

Skemmst er frá því að segja að ferðin heppnaðist vel, við þrömmuðum um fagrar, snyrtilega og hlýlegar götur borgarinnar á milli þess sem við kynntum okkur fjölbreytta menningu: Þjóðminjasafnið, Tívolí, Kristjanía, smörrebröd og pizzur og McDonalds.

Við eigum sko pottþétt eftir að fara þangað aftur við tækifæri!

Þið getið kíkt á myndir úr ferðinniWizard


Það er nú svoddan!

Fyrir utan jólin er tvö vinsæl umræðuefni á kaffistofum landsins

1. Byrgis-hneykslið og nauðgarar sem ganga lausir, þessi tengill er líka í umræðunni, enda svæsið og raunverulegt dæmi um barnaníðing á netinu. Ég segi bara, varúð ekki fyrir viðkvæma.Sick

2. Vatnsveðrið og rokið, það er sko aldeilis ýmislegt búið að ganga á hér á klakanum, svo ekki sé minnst á ástandið á Heathrow, pjúff! Ég hrökk einmitt í kút áðan þegar gasgrill nágrannanna tókst á loft og brotlenti fyrir framan útidyrahurðina hjá mér með tilheyrandi látum. Sem betur fer var enginn fyrir framan dyrnar því hann hefði sennilega ekki getað forðað sér úr skotinu, hjúkket!

Vonandi verður nú þetta orðið skárra á morgun svo maður geti kíkt í bæinn á Þorláknum.

Veðurbarðar jólakveðjur Smile


Af umferð og ókurteisi

bílaröðin

Í gær varð umferðarslys á Vestulandsveginum og þurfti að loka veginum í rúma 2 tíma. Ég var ein af þeim sem sat í bílaröðinni og beið eftir að hægt væri að opna veginn aftur. Ég get ekki sagt að það hafi verið neitt sérstaklega skemmtilegt, eiginlega alveg hrútleiðinlegt. Verra fannst mér þó að hugsa til þess að þarna hefði orðið svona alvarlegt slys og eins og venjulega vonaði maður að "þetta væri enginn sem maður þekkti."

Í sjónvarpsfréttum í kvöld var sagt frá því að fólk, sem var í röðinni eins og ég, hefði hringt bandbrjálað í lögregluna og beðið hana að hunskast burt með bílflökin. Ég get ekki annað en verið sammála lögreglunni um biðja fólk um að sýna þolinmæði, skilning og þroska við slíkar aðstæður þó það væri ekki nema afþví að þarna er um mannslíf að tefla. Í alvörunni, svona fólk ætti skammast sín og fá sekt, svona svipað og hægt er að sekta fyrir að koma ekki manneskju í neyð til hjálpar. Þarna var fólk í neyð og þeir sem áttu leið um Vesturlandsveginn gátu lítið annað gert til að hjálpa en að bíða.

Annars er ég ánægð með að íbúasamtökin á Kjalarnesi hafi látið í sér heyra, það er nefnilega ekki minni þörf á að breikka Vesturlandsveginn heldur en Suðurlandsveginn. Umferðarþunginn er orðinn gríðarlegur, hraðinn hefur aukist og því miður verða fleiri slys þar en á Suðurlandsveginum eða Reykjanesbrautinni.

Það er sennilega við hæfi á að enda þetta með því að biðja lesendur mína að fara varlega í umferðinni eins og ávallt!Smile


Gamalgrónir fordómar...sem lifa góðu lífi!

Ég skrifaði grein í Fréttablaðið í dag, hún nefnist "Alúð við fólk og fræði" og er einnig að finna á visi.is undir Umræðan.

Ég vil hvetja fólk til þess að lesa greinina og gjarnan að svara þeim sem hafa lagt orð í belg í umræðuna á visi.is, en þeir eru sammála Eggerti Briem um að nám í Kennaraháskólanum sé nám á menntaskólastigi og það þurfi sko ekkert háskólapróf til þess að passa börn.

Látið í ykkur heyra!!!!

Kolla


Þvottavélin sem þoldi ekki viðbjóð

Ósköp venjulegur dagur í desember. Kolla ætti að vera læra undir próf en fær óstjórnlega löngun til að gera allt annað, líka það sem henni finnst venjulega leiðinlegt. Hún smellir því jólaplötu á fóninn, smellir í vél og vaskar upp með mikilli gleði. Skyndilega heyrast mikil læti og eftir nokkurra sekúnda umhugsun kemst Kolla að þeirri niðurstöðu að hávaðinn berist úr þvottahúsinu. Þar blasti við ófögur sjón, þvottavélin búin að steypa sér fram af eins og útvarpið í auglýsingunni sem þolir ekki viðbjóð, vatn sprautaðist úr krananum og þvottaklemmur og föt út um allt.

Eftir að hafa stöðvað vatnsflóðið hófst ég handa við að þurrka og hengja upp öll óhreinu fötin sem höfðu blotnað, ekki oft sem maður hengir upp óhreinan þvott! Þvottavélinni til lífs datt hún ofan á gúmmískóna hans Jens en ekki harða steinsteypuna, hún er allavegana ekki brotin. Um nánari heilsu mun þottavélalækninrinn ákvarða þegar hann kemur í heimsókn.

Skemmtilegt að raftæki heimilisins ákveði alltaf að fara yfir um þegar ég er ein heima í mestu rólegheitum, ég er alveg viðbúinn því að ísskápurinn springi í loft upp einn daginn!Sideways


Ég árið 2060

Hress!

Ég horfði aldrei þessu vant á kvöldfréttirnar á Stöð 2 í gær. Ein fréttin var um hækkun frítekjumarks ellilífeyrisþega og í því sambandi var tekið viðtal við ellilífeyrisþega sem að tók þrjár kvöldvaktir á viku á elliheimili. Kella var ánægð með breytinguna, núna fengi hún meiri pening í vasann. Mikilvægast fannst henni þó hvað vinnan er gefandi, bara eitt bros frá þessu gamla fólki væri eins og kauphækkun. Kella er 77 ára!

Hér með set ég mér það sem markmið að vera svona hress þegar ég verð 77 ára og halda villtustu partýin í minni ellimannablokk!Cool 


Jæja, jæja, jæja!

Girnileg framreiðsla

Vegna fjölda áskorana, grátbeiðna, mútutilrauna og afskipta opinberra stjórnvalda höfum við í þýska sendiráðinu á Bárugötunni ákveðið að láta undan þrýstingi og opinbera uppskriftina að hinni víðfrægu og sívinsælu súkkulaðimús!

Nú geri ég ráð fyrir að þið hafið fagnað nægilega og getið því einbeitt ykkur að hinni flóknu og dularfullu uppskrift:

Súkkulaðimúsin hans Jens

350 gr. suðusúkkulaði

2 egg

2 eggjarauður

50 gr. sykur

500 ml. rjómi

Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði. Léttþeytið rjómann. Þeytið restina (egg og sykur) vel og vandlega saman. Bætið súkkulaði út í blönduna á meðan þeytt er. Hrærið léttþeytta rjómanum varlega saman við með sleif. Hellið í skál og kælið í 4-6 tíma. Athugið að nauðsynlegt er að sleikja sleikjuna, hrærivélaskálina og önnur áhöld sem notuð voru vel og vandlega svo að enginn dropi fari til spillis!

Þeim sem eru illa haldnir af súkkulaðimúsarþrá og framtaksleysi bendi ég á Veitingahúsið Geysi.

Verði ykkkur að góðu!Kissing


Eitt ár og ein hrukka í viðbót!

Hélt upp á afmælið mitt um síðustu helgi með pompi og prakt. Skemmtilegast við að eiga afmæli er að fá alla skemmtilegu gestina í heimsókn og símtöl frá öllum heimshornum, Kanada, Þýskalandi og meira að segja Rússlandi! Smile Ekki dónalegt það!

Ég fékk líka æðislegar gjafir, margar svo rausnarlegar að það mætti halda að ég hefði átt stórafmæli! Jens gaf mér langþráðan geislaspilara í bílinn. Mjög tæknilegur, spilar alla diska, ég get skipt um lög og hann hendir diskunum ekki út ef að ég fer í hringtorg. Þannig að ef þið sjáið stelpu á rauðri Corollu sem að syngur hástöfum, hnykkir höfðinu og tekur "luftgítar" á rauðum ljósum, þá er það sennilega ég Whistling

Þið getið kíkt á myndir úr gleðskapnum á myndasíðunni.


Af ljósmyndum og kvikmyndum

Er að hlaða inni myndum af hinum ýmsu tilefnum, geisladrifið á tölvunni komið í lag og tölvan komin aftur "heim".

Góðvinir mínir, Flensa og Hæsi, heilsuðu upp á mig í vikunni og hef þar af leiðandi eytt meiri tíma en venjulega í félagsskap sjónvarpsins. Alltaf hressandi að rifja upp klassískar bíómyndir eins og Bridget Jones 1&2 og Love actually. Sá einmitt svona topp 10 lista yfir bestu myndir allra tíma, ég verð nú bara að segja að ég er ekki baun sammála þessu. Allar Hringadróttins-myndirnar, The Godfather og STAR WARS. Veit ekki með ykkur en þetta eru ekki bestu myndir sem að ég hef séð! Ekki samt misskilja mig og halda að Bridget Jones sé það, svona gæðalega séð. En ég myndi smella Love Actually  á topp 10! Gaman að heyra skoðun ykkar á þessu...

Horfði ekki bara á bíómyndir, Skjár einn hélt líka á mér félagsskap hvaða skoðun sem maður hefur nú á dagskránni þá er ótrúlegt að þeir skulu alltaf, á hverjum degi, vera á eftir auglýstri dagskrá.´Gleyma örugglega að reikna auglýsingarnar inn í eða eitthvað....Hlæjandi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

BulluKolla

Skoðanir og sögur í hversdagslífinu.

Höfundur

Kolbrún Guðríður Haraldsdóttir
Kolbrún Guðríður Haraldsdóttir

222 dagar til jóla

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • vika17 030
  • vika17 029
  • vika17 017
  • vika17 016
  • vika15og16 174

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband