Gleðilegt sumar

2Hækkandi sól og vorilmur í lofti er alveg yndislegt og léttir lundina. Ekki veitir af á þessum síðustu og verstu tímum skólans þar sem maður situr daga og nætur fyrir framan tölvuna og reynir að skrifa gáfulega hluti um allt og ekkert. En sem betur fer fer þessu bráðum að ljúka, minna en mánuður áður en ég klára og það sem skemmtilegra er, minna en mánuður þangað til við fáum afhent, sjibbí!Grin

24 dagar til afhendingar og 35 dagar þangað til við flytjum! Þetta eru atburðir sem eru niðurtalningar virði!Wink

Þangað til held ég áfram að skrifa um fjölbreytni, margbreytileika, hlutbundna vinnu og að koma til móts við þarfir nemandans. Að ógleymdum snýtingum, því eins og lög gera ráð fyrir náði ég mér í væna flensu og kvef á besta tíma!


Frábært!

Ég fagna öllum framförum í sorpmálum á Íslandi, við erum ekki mjög nýjungagjörn á því sviði við Íslendingar.GetLost

Reyndar er nú þegar hægt að flokka ýmislegt og skila, t.d.

  • gleri (af krukkum og flöskum),
  • fernur og með því má fara umbúðapappír t.d. af morgunkorni,
  • auðvitað öll dagblöðin og auglýsingabæklingarnir
  • auk plastumbúða af hreinlætis- og matarvörum eins og sjampóbrúsar
  • og svo bylgjupappír!

Á mínu heimili er þetta samviskusamlega flokkað og skilað til Sorpu enda erum við vön slíku frá Þýskalandinu.Wink Ég veit hins vegar að það eru margir sem vita að það er hægt að flokka og skila þessu, en gera það þó ekki. Því fagna ég framtaki sveitastjórna sem að gera þetta hreinlega að skyldu og útvega fólki viðeigandi tunnur - það er nefnilega svo margt sem að maður kemur ekki í verk fyrr en maður virkilega þarf að gera það.

Áfram með sorpflokkun og endurvinnslu!


mbl.is Kröfur um minni urðun munu umbylta sorphirðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilega páska!

Gleðilega páska, vonandi fengu allir sem vildu páskaegg og hnyttinn málshátt. Ég fékk "fyrri er næring en fullur magi" sem að á svo sem ekki illa við en mér finnst það mjög kaldhæðnislegur málsháttur í páskaeggi. Jens fékk líka viðeigandi málshátt "hjónabandið er háskóli lífsins"! tíhíLoL

Annars var hringt í Jens úr vinnunni hans í dag og hann beðinn um að túlka mjög ákveðna Svisslendinga sem að þjónustustúlkan skyldi ekki. Þeim vantaði þó ekki þýðingu á matseðlinum, því að hann er líka á þýsku, heldur vantaði þeim að vita hvar maður getur fengið leigðan bát á Íslandi. Þau vildu þó ekki fara í hvalaskoðun eða skemmtisiglingu heldur þurftu þau að komast út á sjó til þess að dreifa ösku látinnar frænku sinnar. Eftir svolítið hik og útskýringar um að það væri sennilega aðeins erfiðara að leigja bát en bíl, datt Jens þó í hug að fara inn á já.is og fletta upp á bátaleigum. Svisslendingarnir fengu svo lista með hugsanlegum símanúmerum í hendurnar og nú bíðum við eftir að heyra hvort að frænkan hvíli í friði úti á Faxaflóanum.

Ef að það ætti að lýsa þessu með málshætti mætti kannski nota "það er ekki öll vitleysan eins"...Joyful

Annars vil ég vekja athygli á nýrri skoðanakönnun á síðunnu auk þess möguleika að skrifa athugasemdir við færslur, slíkt gleður sjálfhverfa bloggara ávallt.Smile


Ál, stál, mál, kál, tál og nál !

21Ég held í alvörunni að Íslendingar séu að fara á límingunum þegar að kemur að ál-málum! Þegar að ég horfði á fréttirnar í gær voru kosningarnar í Hafnarfirðinum auðvitað aðalmálið, en í framhaldi af þeim var talað um að reisa álverið bara í Helguvík í staðinn. Svo var sýnt frá opnun álversins í Reyðarfirði og ef að einhver skyldi halda að það væri ekki nóg af fréttum um álversmál þá eru hugmyndir uppi um að reisa álver, sem að vinnur vörur úr álinu, í Þorlákshöfn.

Og þó að það hafi ekki verið akkúrat í þessum fréttatíma, má ekki gleyma álverinu sem að Húsvíkingar eru svo æstir í að fá. Ég held að það sé orðið alveg ljóst að Íslendingar eru alveg álkolkexruglaðir, það sér hver heilvita maður að svo einhæfur þungaiðnaður getur ekki verið lausnin fyrir aldur og ævi. Það er margt til í þeim rökum að það sé betra að nota umhverfisvæna orku íslendinga í stað þess að bræða þetta í útlöndum og ég skil að eitthvað verði að gera í atvinnumálum úti á landi - en álver getur ekki verið lausnin á öllum okkar vandamálum.

Sem betur fer eru fleiri og fleiri Íslendingar að skilja að ál er ekki málið, og reyna að koma skoðun sinni á framfæri og beita ráðamenn þrýstingi, t.d. með því að skrifa undir á Framtíðarlandinu. Ég skora á lesendur mína að gera hið sama, hafi þeir ekki þegar skrifað undir! Wink

Ég held að ef ál-látunum fer ekki að linna, munum við grínlaust þurfa að breyta þjóðsöngnum og syngja hann að hætti Spaugstofumanna í framtíðinni...


Lukkudagur!

Skál fyrir okkur!Sumir dagar eru einfaldlega frábærir. Dagurinn í gær var þannig, loksins gekk allt upp hjá okkur.

Ég fékk vinnu í Víkurskóla, sem er hliðin á nýju íbúðinni okkar.

Bankinn gaf grænt ljós á íbúðalánin.

Tölvan kom úr viðgerð, með nýjum skjá, okkur að kostnaðarlausu þökk sé Kjartani

Svona eiga dagar að vera. Amen og hallelúja.


Allt að verða vitlaust!

Orðið ansi langt síðan að ég bloggaði! Á því eru tvær skýringar: mikið annríki í skólanum og tíðar tölvubilanir.

Elskulega tölvan mín tók upp á því að vera með svo mikil læti og ofhitna. Því var hún færð á EJS-sjúkrahúsið og að henni hlúð, hún þurfti smá kæligel á örgjavann. Lækningin tók ekki nema viku og kostaði tæpar tíuþúsund krónur. Þegar tölvan kom heim varð kátt í höllinni, Kolla og Jens gátu loksins tengst upplýsingaveitum umheimsins að vild! En gleðin stóð stutt, aðeins tveimur dögum síðar veiktist skjárinn, "back-lightið er farið" samkvæmt sjúkdómsgreiningu. Það kostar litlar 83.000 krónur að laga og borgar sig því miður ekki fyrir tölvuna sem er nýbúinn að fagna tveggja ára afmæli sínu og því nýdottin úr ábyrgð.

Slíkar uppákomur og endalaus óheppni vill ergja jafnvel skapbesta fólk. En þegar maður er kominn yfir ergelsið er lítið að gera annað en að reyna finna lausn á vandamálinu, til bráðabirgða er fartölvan með bilaða skjáinn tengd við yndislega gamaldags túbuskjá, en hann virkar fínt!Happy

Auk þess að standa í þessu tölvuveseni erum við í íbúðahugleiðingum (spennandi!) og erum með gesti frá Þýskalandi (gaman!). Það jafnar eiginlega út tölvuergelsið! Smile

Látum þetta duga í bili í bloggheimum!


Þegar Snorri vann Idol...

Kátir feðgarÉg trúi ekki lengur á símakosningar, fólk er bara greinilega ekki með nógu góðan smekk!

Ég varð fyrir "svolitlum" vonbrigðum með úrslit Evróvisjón undankeppninnar á Íslandi, ótrúlega mikið að góðum lögum þetta árið og ég kaus auðvitað Heiðu og heilann hennar. En nei, nei, rauðhærði öldungurinn Eiríkur hlaut bestu kosninguna með sæmilegu rokklagi. Húff, það voru mikil vonbrigði og minntu mig mjög á sigur Snorra nokkurs í Idolinu forðum daga...

Er búin að veðja við bróðir minn (sem NB kaus Eirík öldung) um að Ísland komist ekki áfram úr undankeppninni. Heiti því að kaupa geisladiskinn með Snorra Idol ef við komumst áfram, hrumpf!


Þyngri dóma fyrir kynferðisafbrotamenn

Það hefur mikið verið rætt um barnaníðinga, væga dóma fyrir brot þeirra og en styttri afplánun undanfarið. Ég er afskaplega hlynnt endurhæfingu fanga og tel að áfangaheimili eins og Vernd séu afskaplega mikilvæg í því skyni. En ég á erfitt með að skilja hvernig siðblindur síbrotamaður eins og Ágúst Magnússon kemst þangað. Og í raun er það sorglegt því það kemur óorði á annars nauðsynlega og hentuga stofnun.
Ég var líka sérstaklega ánægð með framtak Morgunblaðsins þar sem hann gerir mildaðan dóm Hæstaréttar yfir kynferðisafbrotamanni að umtalsefni, en myndbirtingin er nokkuð vafasöm, sbr. grein Ara Karlssonar í Deiglunni. Ari talar reyndar um að ekki eigi að sakast við dómarana heldur Alþingi sem setur lög um refsiramma. En það skil ég ekki þar sem refsiramminn er til staðar, allt að 12 árum.Ég er ekki að gera lítið úr störfum og ábyrgð dómara, heldur þvert á móti að kalla þá til ábyrgðar, þeir hafa völdin og fordæmisgildið til þess að breyta einhverju í þessum málum og þyngja dóma í kynferðisbrotamálum. Víðari refsirammi er til staðar.
Ég sá gott framtak á bloggsíðu gamallar skólasystur og ákvað að gera hið sama, sendi formleg mótmæli til Hæstaréttar Íslands (haestirettur@haestirettur.is). Erindið var svohljóðandi:

Sem íslenskur ríkisborgari lýsi ég miklum vonbrigðum og reiði yfir dómi ykkar í máli ákæruvaldsins geng Ólafi Barða Kristjánssyni. Hann var dæmdur í Hérðasdómi til 2 ára fangelsis vistunar fyrir kynferðisafbrot geng stúlkubörnum og var yngsta fórnarlambið þriggja ára.
Þið hins vegar milduðuð dóminn og er hann nú dæmdur til 18 mánaða vistar en verður væntanlega laus eftir um það bil ár.
Hvernig stendur á því að þessi menn komast upp með að fremja þessa glæpi og komast upp með það. Já, komast upp með það því að mínu mati eru 18 mánuðir ekki nóg fyrir að særa lítið sálartetur ævilangt. Mér þykir sorglegt að búa í þjóðféglagi sem ekki lítur alvarlegri augum á þessa glæpamenn.
Þyngsta refsing fyrir glæp af þessu tagi er, að ég best veit, 12 ár og ég get einfaldlega ekki skilið afhverju þið beitið ykkur ekki betur fyrir því að þyngja dóma í málum sem þessum og bjarga börnunum okkar frá þessum rándýrum.
Ég biðla til ykkar að taka alvarlegar á þessum dómum og setja fordæmi. Þið hafið valdið til að sýna þessum mönnum að íslenska þjóðfélagið sættir sig ekki við að ráðist sé á saklaus og varnarlaus börnin okkar.
Virðingarfyllst,
Kolbrún G. Haraldsdóttir

Ég vil ekki vera talsmaður múgæsings sem að vill gelda alla barnaníðinga og helst lífláta. Ég vil trúa því að hægt að hjálpa mörgum afbrotamönnum, líka barnaníðingum. En sé einhver vafi á því hvort að þeim sé treystandi aftur út í samfélagið á að láta almenning (börnin) njóta vafans. Og er þar sem rúmur refsirammi er til staðar vil ég að hann sé betur nýttur, bæði í því skyni að halda þeim frá almenningi og einnig til að veita þeim þá meðferð og endurhæfingu sem þeir þarfnast.

Hvar byrjar Kjalarnesið?

Áhugaverð frétt um tvöföldun Vesturlandsvegar á mbl.is.

Nokkrir bloggarar eru að velta fyrir sér afhverju ekki sé tvöfaldað frá Mosfellsbænum og upp í Borgarnes í stað þess að tvöfalda frá Kjalarnesinu eins og segir í fréttinni. Og ég verð að vera sammála bloggurnunum, það væri fávitalegt að tvöfalda bara frá Kjalarnesinu, þ.e.a.s. ef að Kjalarnes er þar sem Grundarhverfið er.

En reyndar byrjar "Kjalarnesið" (nú Reykjavík) þegar maður er rétt kominn fram hjá Þingvallarafleggjarnum, þannig að kannski á bara að tvöfalda almennilega? Hvernig skiljið þið þetta?


mbl.is Gert ráð fyrir tvöföldun Vesturlandsvegar að Borgarnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram Ísland!

Anti-sportistarnir Kolla og Jens eru smituð af handboltaæði landsmanna, meira að segja Jens öskraði siguróp þegar Ísland "rústaði" Frökkum um helgina. Spennan er þó mest fyrir sunnudaginn en þá mætast einmitt Íslendingar og Þjóðverjar. Kannski best fyrir heimilisfriðinn að það endi með jafntefli....

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

BulluKolla

Skoðanir og sögur í hversdagslífinu.

Höfundur

Kolbrún Guðríður Haraldsdóttir
Kolbrún Guðríður Haraldsdóttir

222 dagar til jóla

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • vika17 030
  • vika17 029
  • vika17 017
  • vika17 016
  • vika15og16 174

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband