Kolla klaufi!

Það er kominn tími til að ég haldi loforðið og segi ykkur hvernig Blönduóslöggan og týndir ferðalangar tengjast sumarfríinu mínu.... Ég er nú reyndar ekkert mjög stolt yfir tengslunum en þið getið vonandi skemmt ykkur yfir óförum mínum og lært af þeim, eða litið þetta sem leiðbeiningar ef ykkur langar að rata í vandræði.Glottandi

Tengsl mín við Blönduóslögguna urðu of náin fyrir minn smekk, já, þeir eiga meira að segja mynd- og hljóðupptöku af mér þar sem ég mótmæli ekki þeim sökum sem á mig eru bornar. Ég, Kolbrún Guðríður, játa hér með að hafa ekið á 111 km hraða í umdæmi Blönduóslögreglunnar. Ég samþykki einnig að greiða uppsetta fjársekt. Þetta var nú eiginlega gott á mig, ég sem keyri alltaf hægar en amma mín og er alltaf með beltin spennt -telst það ekki til lækkunnar á sektinni!?!

Nokkrum dögum seinna hætti ég mér aftur út á þjóðvegi landsins (sem eru einir og sér efni í marga pistla) og í þetta sinn hafði fararskjótinn færri hestöfl undir húddinu. Þá kom ég (eða eiginlega Jens) mér/okkur í vandræði á tveimur jafnfljótum.

Við fórum í útilegu og tjölduðum rétt hjá Eldborg á Snæfellsnesinu. Eins og vill verða í útilegum sótti að okkur kuldi um kvöldið þannig að við ákváðum að fá okkur smá göngutúr fyrir svefninn. Við ákváðum að labba upp á Eldborgina, ekki nema 2 km! Við lögðum af stað um ellefuleytið og rákumst á skilti frá Náttúruvernd þar sem hamrað var á því að fylgja merktum gönguleiðum og alls ekki skemma viðkvæman gróðurinn. Við komum klakklaust upp á Eldborgina og nutum útsýnisins.

Á leiðinni til bara fór að halla á ógæfuhliðana því að við fundum ekki göngustíginn, hann var NB ekki stikaður eða merktur á neinn hátt, bara niðurtroðinn slóði. Við sáum samt bóndabæinn greinilega og Jens ákváð að stefna á hann, stígurinn hlyti að koma í ljós bakvið eitthvert kjarrið eða ofan í einhverri hraungjótunni. Eftir að hafa brotist í gegnum íslenskt kjarrlendi í dágóða stund stakk ég upp á að halda aftur að Eldborginni og reyna finna göngustíginn þar, hann hlyti jú að vera einhversstaðar í grenndinni. Þýska karlmennið vildi ekki heyra á slíkt minnst og dró mig áfram. Þegar myrkrið var skollið á og líkaminn farinn að kvarta undan öllu þessu príli varð Jens loksins að viðurkenna að við værum rammvillt í þessum íslenska skógarhraunlendi og ef að við héldum áfram á þessum hraða værum við kominn aftur á tjaldsvæðið annað kvöld.

Við settumst því niður, biðum eftir birtingu og blésum mæðinni. Svo brutum við okkur leið (þar fór þetta með að skemma ekki viðkvæman gróðurinn) aftur að Eldborginni. Og viti menn, eftir nokkra leit römbuðum við á göngustíginn! Það voru mjög mjög þreyttir en líka mjög mjög fegnir göngugarpar sem hrundu inn í tjaldið sitt rétt fyrir klukkan fjögur þessa nótt.

Af þessu má draga nokkurn lærdóm:

1. Merktar gönguleiðir þýðir niðurtroðinn slóði (nema það þýði ósýnilegar innrauðar merkingar...).

2. Ekki "skreppa" í kvöldgöngutúr án klukku, síma, vasaljóss eða láta einhvern vita.

3. Ef að þú heitir Jens þá hefur KOLLA ALLTAF RÉTT FYRIR SÉR! Engar undantekningar -þetta heitir kvenlegt innsæi.Koss

                                                                         -Lifið heil!-


Myndir!

Smellti inn tveimur nýjum albúmum með sumarfrísmyndum, þau heita Akureyri og ferðalag, ítarlegri frásögn að ævintýrunum sem að fylgdu koma bráðlega en þar koma við m.a. sögu Blönduóslöggan og týndir ferðalangar...Hissa

"We´re all going on a Summer Holiday..."

c_documents_and_settings_kolbrun_my_documents_my_pictures_beach_20umbrella.jpg

Ahhhhhhhhh, ég er komin í sumarfrí, þvílíkur lúxus!

Leikskólinn er kominn í tveggja vikna langþráð sumarfrí, elstu börnin voru svo afskaplega orkurík og uppátektarsöm síðasta daginn að ég kvaddi þau án nokkurs trega, pjúff!

Núna einbeiti ég mér að því að njóta sumarfrísins, raða myndum í myndaalbúm, hitta fólk, fara í ræktina, föndra við gjafir, skipuleggja afmælið hans Jens í september og best af öllu: sofa út! Enda bara 4 vikur þar til skólinn byrjar.

Svo hvíslaði lítill fugl að mér að einhver að leikkonunum úr Sex&theCity hefði snætt kvöldverð á Humarhúsinu í gær, fuglinn gat þó ómögulega munað hver þeirra það var....


Americas got Talent!

Taylor Ware

Er orðin "hooked" á nýjum þætti, Americas got Talent! ekki ósvipað Idolinu nema að þarna gerir fólk flest annað að syngja. Algjörlega ótrúlegt hvað fólk getur gert, þið getið skoðað þetta á www.nbc.com/Video, þar eru margar skemmtilegar klippur! Uppáhaldið mitt hingað til Taylor Ware en hún er 11 ára og jóðlar -í alvörunni -þið verðið að skoða myndskeið með henniHlæjandi

Setti líka inn myndir úr afmælinu hennar Salvarar vinkonu- þetta var sko stelpupartý í lagi!


Það sem ég skil ekki

c_documents_and_settings_kolbrun_my_documents_my_pictures_bilbeti.jpg

Er alltaf jafn hissa þegar að ég sé auglýsingaherferðir sem miða að því að fá fólk til að spenna beltin. Mér finnst bara ótrúlegt að það þurfa að minna fólk á jafn sjálfsagðan hlut, en það eru víst ótrúlega margir sem að gera þetta ekki. Það er einmitt gerða könnun á hverju ári hvort að börn séu með viðeigandi öryggisbúnað í bílum þegar þau eru keyrð í leikskólann og það eru alltaf einhver börn sem að eru ekki spennt, eða ekki í bílstól eða sitja frammi í. Mér er alveg fyrirmunað að skilja hvernig foreldrar geta réttlætt slíkt fyrir sér.

Þetta minnir mig reyndar svolítið á fólk sem vill ekki vera með hjálm þegar það er að hjóla. Ég skal alveg viðurkenna að maður lítur ekkert svakalega lekker út með svona hjálm, en ég hef líka dottið nógu oft af hjólinu mínu til þess að vita hvað hann er mikilvægur!!! Á leikskólanum þar sem ég vinn er hjóladagur einu sinni í viku á sumrin. Allir mega koma með hjól í leikskólann og við eyðum öllum deginum í að stilla hjálma, smella á og af og passa að enginn hjóli hjálmlaus - enda teljum við ábyrgð okkar mikla þegar að kemur að öryggi barnanna. Það hefur þó komið fyrir, oftar en einu sinni, að foreldrarnir sækja börnin í leikskólann og leyfa þeim að hjóla heim hjálmlausum!!! Það get ég heldur ekki skilið...


Afslöppun í sveitasælu

Ég og Jens smelltum okkur í bústað um helgina og fögnuðum góðviðrinu eins og sönnum Íslendingum sæmir. Sigga vinkona og Kjartan bró voru  með í för og við fengum bústað rétt hjá Laugarvatni sem að var mjög fínn. Fyrsta kvöldið var potturinn eitthvað að stríða okkur en strákarnir þurftu nottla að sanna karlmennsku sína, fyrst að þeir gátu ekki lagað hann var gripið til þess ráðs að hita vatn í litlum pottum á eldavélinni. Eftir einn og hálfan tíma hafði þeim tekist að hækka hitastigið úr 30 gráðum í 35. Sigrinum var fagnað með því að smella sér í heita pottinn, svona rétt rúmlega hlandvolgan!

Á laugardagseftirmiðdeginum fórum við í bíltúr sem að verður lengi í minnum hafður! Löggan á Flúðum stoppaðu Siggu, sem að er þekkt fyrir allt annað en neyslu áfengis, og lét hana blása. Okkur og Siggu fannst þetta svo fyndið að hún ætlaði aldrei að geta blásið!

Annars höfðum við það bara notalegt, spiluðum Kubb úti, Risk og Phase 10 inni, fórum í bíltúr, hlustuðum á góða tónlist og grilluðum allskonar gotterí. Sannkölluð lúxushelgi, ahhhh.....Svalur

Bjó til albúm með nokkrum myndum úr ferðinni og núna er hægt að "kommenta" án þess að þurfa staðfesta með tölvupósti og svoleiðis vesen!


Ævintýrið um sjónvarpið

Það kviknaði í sjónvarpinu mínu um daginn. Fyrst kom lítill hvellur, svo píp og þar næst ótrúleg bræla af brunnu plasti.  Aldrei þessu vant var ég ekki sofandi á sófanum þannig að ég reif tækið úr sambandi og hringdi í pabbi-bjargaðu-mér-hjálparlínuna. Sem betur fer var ekki um eiginlegan eld að ræða heldur hafði sjónvarpið brunnið yfir. Pabbi ráðlagði mér að halda á sjónvarpinu út til að forðast eitraðar plastgufurnar en þar sem handleggirnir á mér eru ekki einn og hálfur metri á lengd hvor, reyndist það illmögulegt fyrr en Jens kom heim úr vinnunni nokkrum tímum síðar. Þangað til voru allir gluggar og hurðin á íbúðinni galopinn og hitastigið um lopapeysu- og ullarsokkastig.

Þá kom næsti hausverkur, og hann stafaði ekki af plastbrælunni! a) fá tjónið bætt b)kaupa nýtt sjónvarp. Þótt ótrúlegt megi virðast í plasmaskjávæðingunni kostar viðbjóðslega venjulegt 29" túbusjónvarp um 60 þúsund krónur. TM-tryggingar voru svo rausnarlegar að bæta okkur um einn þriðja af tjóninu, heilar 23 þúsund krónur. Einkennilegar aðferðir við útreikninga þar á bæ....

Mað péningana í rassvasanum lögðum við Jens galvösk af stað í sjónvarpsleit en sjónvarpsleitin varð að prófsteini í þessu ævintýri. Sama í hvaða verslun við komum urðu sölumenn stórhneykslaðir að við skyldum vera leita að venjulegu túbusjónvarpi en ekki hágæða, nýtísku og rándýru plasmasjónvarpi. Eftir að hafa gengist undir sálfræðipróf sem kannaði geðheilsu okkar (m.a. þjóðerni, neyslufíkn, þjóðfélagsstöðu og fjárhag) var okkur hleypt inn í rykfallnar geymslu með nokkrum eintökum af túbusjónvörpum sem þeir ætluðu að gefa Árbæjarsafni. Vegna slæmrar útkomu sálfræðiprófsins fengum við að kaupa slíkan 28" safngrip á gjafverði, eða um 36 þúsund krónur, sjibbí!

Nú get ég aftur sæl og glöð horft á SkjáEinn í lélegum myndgæðum og bognum skjá. Köttur út í mýri, sett´upp á sig stýri, úti er ævintýri!


Lítill frændi fæddur!

Í gær bættist enn í fjölskylduna þegar að litli kanadabúinn fæddist! Hann hefur fengið það fallega nafn Finn Markus. Prinsinn lét bíða eftir sér og var stór og sterkur eftir því, 52 cm og 3,5 kíló.

Til hamingju Guðbjartur brósi og Megan!Hlæjandi


Mín bara farin að blogga!

Er hér með komin í hóp óteljandi íslenskra bloggara og verð því bara að segja eins og Silvía, "Til hamingju Ísland!".

Ég vona að mér takist að vera frambærilegur bloggari og blogga reglulega, ég verð allavegana duglegri við það en að dúlla við heimasíðuna góðu! Núna er ég líka stoltur eigandi stafrænnar myndavélar og get því lífgað upp á bloggið með myndum, ekki slæmt það!

bis bald...


« Fyrri síða

Um bloggið

BulluKolla

Skoðanir og sögur í hversdagslífinu.

Höfundur

Kolbrún Guðríður Haraldsdóttir
Kolbrún Guðríður Haraldsdóttir

154 dagar til jóla

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • vika17 030
  • vika17 029
  • vika17 017
  • vika17 016
  • vika15og16 174

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband